Viktor komst í fámennan hóp

Viktor Bjarki Arnarsson skallar boltann í leik með Víkingi.
Viktor Bjarki Arnarsson skallar boltann í leik með Víkingi. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Viktor Bjarki Arnarsson, miðjumaðurinn reyndi úr Víkingi í Reykjavík, náði stórum áfanga í gær þegar hann lék með liðinu gegn KA á Akureyri í Pepsi-deild karla.

Viktor, sem er 34 ára gamall, komst með þessu í hóp þeirra knattspyrnumanna sem hafa spilað 200 leiki í efstu deild hér á landi, en auk hans hafa aðeins fjórir af núverandi leikmönnum í deildinni náð þeim áfanga.

Það eru Óskar Örn Hauksson úr KR sem er með 247 leiki, Gunnleifur Gunnleifsson úr Breiðabliki sem er með 243 leiki og FH-ingarnir Atli Viðar Björnsson sem er með 243 leiki og Atli Guðnason sem er með 220 leiki. Samtals hafa nú 56 leikmenn náð 200 leikjunum frá upphafi en Birkir Kristinsson, fyrrverandi landsliðsmarkvörður, á metið, 321 leik.

Viktor Bjarki lék fyrst í deildinni árið 2004, með Víkingi, en þar hefur hann einnig spilað með Fylki, KR og Fram. Af þessum leikjum eru 79 fyrir KR, 65 fyrir Víking, 40 fyrir Fram og 16 fyrir Fylki. 

Viktor lék um skeið í Hollandi og Noregi og að leikjum þar meðtöldum hefur hann spilað 250 deildaleiki á ferlinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert