Líktist frekar sundbolta en fótbolta

Ólafur Pétursson, fyrir miðju, stýrði Breiðabliki í kvöld.
Ólafur Pétursson, fyrir miðju, stýrði Breiðabliki í kvöld. mbl.is/Kristinn

Ólafur Pétursson stýrði Blikum í fjarveru Þorsteins Halldórssonar gegn ÍBV í 7. umferð Pepsi-deildar kvenna í kvöld. Liðið tapaði með tveimur mörkum gegn engu og virtust leikmenn liðsins aldrei líklegir til þess að skora.

„Þetta voru erfiðar aðstæður og þær nýttu sér það betur en við, þær skoruðu tvö mörk þarna en við vorum kannski að reyna að spila of flottan fótbolta miðað við það sem völlurinn leyfði. Hann var mjög blautur og erfiður og líktist frekar sundbolta heldur en fótbolta á löngum köflum,“ sagði Ólafur en blaðamaður varð ekki var við þann flotta fótbolta sem gestirnir áttu að hafa reynt að spila.

Sjá einnig: Það hafa allir spilað í bleytu

Það var helst til of mikið um það að leikmenn liðsins ætluðu að gera hlutina upp á eigin spýtur frekar en að nýta liðsfélaga sína og var sóknarleikur Blika bestur þegar boltinn fékk að ganga út á Svövu Rós Guðmundsdóttur sem var sú eina í framlínu liðsins sem var fyrir ofan frostmark í dag. Til að bæta gráu ofan á svart var hún tekin út af undir lokin og líktist það uppgjöf frá gestunum.

Lið Breiðabliks leit í raun aldrei út fyrir það að skora í dag, eins og kemur áður fram var sóknarleikur liðsins ekki upp á marga fiska á löngum köflum leiksins.

„Við náðum ekki að nýta hraðann eins og við gerum oft, boltinn var oft að stoppa á köntunum þegar við vorum á leið upp og annað. Svona er fótboltinn, stundum vinnur maður og stundum tapar maður.“

Breiðablik hefur nú tapað tveimur leikjum í deildinni á þeim útivöllum sem eru lengst frá Kópavoginum, er eitthvað við ferðalagið sem er erfitt?

„Þetta snýst ekkert um það, svona er fótboltinn.“

Hvað hefði liðið geta gert betur í dag?

„Skora mörk, en við gerðum það ekki, við náðum ekki að ógna þeim nógu mikið og kannski vorum klaufar að fá á okkur mörk á móti.“

ÍBV voru með sætaferðir upp kantana í leiknum og voru að valda miklum usla í varnarlínu liðsins þá aðallega Cloe Lacasse sem átti enn einn stórleikinn í liði ÍBV.

„Vissulega, enda er Cloe góður leikmaður, hún var öflug í dag og við náðum ekki að stoppa hana.“

Hvernig ætlar Breiðablik að stíga upp úr þessu?

„Með sigri á Þór/KA á laugardaginn í bikarnum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert