Valskonur unnu þriðja leikinn í röð

Kapphlaup í leik Hauka og Vals í kvöld.
Kapphlaup í leik Hauka og Vals í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Valur vann öruggan útisigur á botnliði Hauka í Pepsi-deild kvenna í knattspyrnu í dag, 4:1. Þetta var þriðji sigur Vals í röð eftir erfiða byrjun á mótinu, en Haukar eru enn á botninum með aðeins eitt stig.

Valskonur byrjuðu leikinn með látum og var aðeins komin rétt rúm mínúta á klukkuna þegar Ariana Calderon skoraði af stuttu færi. Haukakonum gekk þá illa að koma hornspyrnu frá marki og eftir þunga sókn skoraði sú mexíkóska, annan leikinn í röð.

Margrét Lára Viðarsdóttir þurfti að fara af velli vegna meiðsla um miðjan hálfleikinn, en það kom ekki að sök fyrir Val. Skömmu síðar skoraði Vesna Elísa Smiljkovic annað mark Vals, með skoti af stuttu færi. Valur bætti við þriðja markinu rétt fyrir hálfleik. Elín Metta Jensen skoraði þá með góðu skoti eftir skemmtilega sókn upp hægri vænginn.

Staðan í hálfleik var 3:0 Val í vil, en þær tölur sögðu ekki alla söguna. Haukar sköpuðu sér alveg jafnmörg og alveg jafngóð færi og gestirnir úr Val. Það gekk hins vegar ekki nægilega vel að nýta færin og refsuðu Valskonur grimmilega.

Valur var svo mikið sterkari aðilinn í seinni hálfleik og fékk Elín Metta Jensen gullið tækifæri til að skora fjórða mark Vals um miðjan seinni hálfleik. Tori Ornela braut þá á Vesnu Elísu innan teigs og dæmd var vítaspyrna. Tori varði hins vegar slaka spyrnu Elínar af öryggi. Örskömmu síðar var staðan hins vegar 4:0. Varamaðurinn Hlín Hauksdóttir skoraði þá af stuttu færi eftir að Arna Sif Ásgrímsdóttir skallaði hornspyrnu að marki. Marjani Hing-Glover lagaði stöðuna fyrir Hauka í blálokin en 4:1 sigur Vals var aldrei í hættu.

Í Grindavík hafði FH svo betur gegn heimakonum, 3:1, og hefur Grindavík nú tapað fjórum leikjum í röð. 

Grindavík - FH 1:3
Rilany 36. -- Helena Ósk Hálfdánardóttir 2. Guðný Árnadóttir 51. Megan Dunnigan 55.

Haukar 1:4 Valur opna loka
90. mín. Leik lokið Öruggur sigur Vals á botnliðinu.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert