„Lítur betur út en í gær“

Guðjón Baldvinsson fór meiddur af velli í leiknum gegn Val …
Guðjón Baldvinsson fór meiddur af velli í leiknum gegn Val í gær. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég get ekki sagt til um það á þessari stundu hvort þeir verði með í leiknum á móti FH eða ekki,“ sagði Rúnar Páll Sigmundsson þjálfari Stjörnunnar við mbl.is í dag en hann var þá nýbúinn að stýra æfingu sinna manna.

Guðjón Baldvinsson, Eyjólfur Héðinsson og Daníel Laxdal fóru allir meiddir af velli í bikarleiknum gegn Val á Valsvellinum í gær þar sem Stjarnan hafði betur, 2:1. Guðjón og Eyjólfur þurftu að hætta leik í fyrri hálfleik en Daníel þegar um stundarfjórðungur var til leiksloka.

„Við verðum bara að bíða og sjá til með þá. Ég met þá alla 50/50. Við munum reyna allt sem í okkar valdi stendur til að gera þá leikfæra. Þetta lítur samt aðeins betur út núna heldur en í gær. Það er fimmtudagur í dag og leikurinn við FH er ekki fyrr en á sunnudagskvöldið. Við erum með gott teymi í kringum þessa stráka okkar. Nú ef þeir verða ekki með þá koma bara aðrir í staðinn. Við erum með öflugan hóp svo ég hef ekki áhyggjur af því,“ sagði Rúnar Páll.

Guðjón fékk tak í bakið, Daníel varð fyrir meiðslum aftan í læri og Eyjólfur fékk högg á ökklann.

Stjörnumenn hafa verið á mikilli siglingu. Þeir tróna í toppsæti Pepsi-deildarinnar með 13 stig eftir fimm leiki og eru komnir í átta liða úrslit bikarkeppninnar eftir sigurinn á Valsmönnum sem fyrir leikinn í gær höfðu ekki tapað bikarleik í tæp þrjú ár.

FH og Stjarnan eigast við á Kaplakrikavelli á sunnudagskvöldið og ríkir mikil spenna og eftirvænting fyrir rimmu grannliðanna en Íslandsmeistarar FH hafa spilað fjóra leiki í röð án sigurs í deildinni og eru í áttunda sæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert