Búin að vera erfið vika

Jóhann Laxdal, fyrir miðju, og félagar hans í Stjörnunni töpuðu …
Jóhann Laxdal, fyrir miðju, og félagar hans í Stjörnunni töpuðu í Krikanum í kvöld. mbl.is/Golli

„Mér fannst við vera að komast vel inn í leikinn í seinni hálfleik en eftir að FH skoraði annað markið var á brattann að sækja,“ sagði Jóhann Laxdal, hægri bakvörður Stjörnunnar, við mbl.is eftir 3:0 tap sinna manna gegn Íslandsmeisturum FH í 6. umferð Pepsi-deildarinnar í knattspyrnu í Kaplakrika í kvöld.

„Það vantaði of oft að gera lokahnútinn á sóknir okkar og að skjóta meira á markið. FH-ingarnir voru komnir með bakið upp á veggnum fyrir þennan leik og þeir komu mjög grimmir til leiks. Vikan er búin að vera erfið hjá okkur. Við vorum í hörkuleik á móti Val í bikarnum þar sem við misstum þrjá sterka menn í meiðsli sem gátu ekki verið með okkur í kvöld. Ef þú missir hrygginn í liðinu þá hefur það áhrif en þeir sem komu inn gerðu sitt besta og það er ekkert við þá að sakast,“ sagði Jóhann Laxdal.

Þrátt fyrir ósigurinn eru Stjörnumenn áfram í toppsætinu. Þeir eru með 13 stig eins og Valsmenn en með betri markatölu.

„Þetta var smá högg í andlitið en það góða við þetta allt saman er að við erum í toppsætinu og ætlum að halda okkur þar. FH-ingarnir mega alveg dansa með okkur í efri hlutanum en við tökum lokadansinn,“ sagði Jóhann Laxdal.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert