Ég veit að við fáum stig

Þjálfarateymið. Heimir Hallgrímsson, landsliðsþjálfari, Helgi Kolviðsson aðstoðarþjálfari og Guðmundur Hreiðarsson …
Þjálfarateymið. Heimir Hallgrímsson, landsliðsþjálfari, Helgi Kolviðsson aðstoðarþjálfari og Guðmundur Hreiðarsson markvarðarþjálfari. mbl.is/Golli

„Undirbúningurinn fyrir leikinn hefur gengið mjög vel. Við erum búnir að fara yfir marga hluti og skoða króatíska liðið frá a til ö svo strákarnir eru vel undirbúnir undir það sem koma skal,“ sagði Helgi Kolviðsson, aðstoðarþjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu við mbl.is fyrir æfingu landsliðsins á Laugardalvellinum í dag.

Mikil spenna er á meðal íslensku þjóðarinnar fyrir leiknum gegn Króötum í undankeppni HM sem fram fer á Laugardalvellinum á sunnudagskvöldið en um toppslag er að ræða í riðlinum.

„Það er eitthvað um breytingar í króatíska liðinu. Það er ljóst að Rakitic verður ekki með en Króatarnir eru vel mannaðir í öllum stöðum og eins og allir vita þá er þetta gríðarlega öflugt lið,“ segir Helgi.

Spurður hvar hann haldi að úrslitin í leiknum geti ráðist segir Helgi;

„Við þurfum að vera ofboðslega skipulagðir og agaðir, halda stemningunni okkar megin og við þurfum helst að skila fullkomnum leik á móti þeim. Ef okkur tekst að ná þessu fram þá eigum við möguleika. Það eru mikil gæði í þessu króatíska liði. Við verðum að hafa augu á Luka Modric sem er potturinn og pannan í liði Króatana. Við erum búnir að skoða hann vel og sjá hvaða hlaup hann tekur og á hvaða svæði hann vinnur svo við erum alveg tilbúnir að mæta honum eins og öllum öðrum í þeirra liði,“ sagði Helgi.

Eru þið búnir að ákveða byrjunarliðið?

„Nei við erum ekki búnir að því. Við erum með ákveðnar hugmyndir og tillögur af því sem gæti gengið upp. Við höfum nýtt vikuna til að vega og meta hina ýmsu hluti. Við munum að sjálfsögðu reyna að stilla upp okkar sterkasta liði sem okkur finnst henta best í þennan leik. Við höfum engar áhyggjur af þeim leikmönnum sem hafa lítið spilað með sínum félagsliðum. Við erum búnir að æfa vel og ég veit að þeir verða ferskir og tilbúnir að leggja allt í sölurnar. Ég veit að við fáum stig út úr þessum leik en það er bara spurning hvort þau verði eitt eða þrjú.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert