Aldrei séð bolta fara hægar yfir markmann

Gylfi Þór Sigurðsson spyrnir að marki í kvöld.
Gylfi Þór Sigurðsson spyrnir að marki í kvöld. mbl.is/Golli

Gylfi Þór Sigurðsson, landsliðsmaður í knattspyrnu, var að sjálfsögðu himinlifandi með 1:0 sigurinn á Króötum í undankeppni HM í kvöld. Sigurmarkið kom frá Herði Björgvini Magnússyni þegar ein mínúta var eftir af leiknum. Hvað fannst Gylfa skilja liðin að í dag? 

„Það var ekki mikið, bara eitt mark. Varnarleikurinn hjá okkur í dag var frábær og við vorum þolinmóðir. Við vissum að við myndum ekki vaða í færum, en við ætluðum að nýta okkar færi þegar við myndum fá þau. Við töluðum um það fyrir leikinn að föst leikatriði væri mikill möguleiki fyrir okkur og sem betur fer skilaði það sér og það skilaði þremur stigum.“

„Við höfðum alltaf trú en þegar það eru 85 mínútur búnar og við búnir að fá nokkur hálffæri eins og skallann hjá Jóa og mikið af aukaspyrnum og hornspyrnum, þá hefur maður smá áhyggjur. Þetta datt aldrei fyrir okkur, en við höfðum alltaf trú á að við gætum komið boltanum í netið. 

„Þetta var ekki fallegasta skallamarkið en það var mikilvægt," sagði Gylfi og hló. „Ég hef aldrei séð boltann fara hægar yfir markmann og það var mjög sætt að sjá hann í netinu.“

Gylfi var mjög sáttur við varnarleikinn í dag enda fengu Króatar fá færi. 

„Þetta er venjan hjá okkur á heimavelli, vörnin okkar er það góð að liðin eiga erfitt með að skapa eitthvað á móti okkur. Við sáum það á móti Hollandi og fleiri liðum.“

Gylfi er spenntur fyrir síðustu leikjum riðilsins enda stefnir í ansi harða og spennandi baráttu fjögurra liða. 

„Það eru fjögur lið sem eru með 13 stig og 11, meira en helmingurinn í riðlinum er enn í séns að komast áfram. Þetta verður gríðarlega erfið lokahrina af leikjum,“ sagði Gylfi Þór Sigurðsson í samtali við mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert