Margrét Lára ekki með á EM

Margrét Lára Viðarsdóttir haltrar af velli.
Margrét Lára Viðarsdóttir haltrar af velli. mbl.is/Kristinn Magnússon

Landsliðsfyrirliðinn Margrét Lára Viðarsdóttir verður ekki með íslenska landsliðinu á EM í knattspyrnu í Hollandi í sumar, þar sem hún hefur slitið krossband og verður frá keppni í langan tíma. Margrét Lára varð fyrir meiðslunum í leik Vals og Hauka í Pepsi-deildinni í síðasta mánuði.

Þetta er mikið áfall fyrir landsliðið, Val og auðvitað Margréti sjálfa, en Margrét Lára er reyndasti leikmaður landsliðsins. Hún á að baki 117 landsleiki og í þeim hefur hún skorað 77 mörk. 

Meiðslin eru mun alvarlegri en talið var í fyrstu en Úlfur Blandon, þjálfari Vals, sagði í samtali við mbl.is eftir leikinn gegn Haukum að hann reiknaði ekki með að meiðslin væru alvarleg og eru fréttirnar því mikið áfall. 

Margrét Lára er þriðji leikmaður Vals sem missir af EM vegna krossbandsslita. Systir hennar, Elísa Viðarsdóttir og Dóra María Lárusdóttir missa báðar af mótinu vegna sams konar meiðsla. Fjórða Valskonan, Mist Edvardsdóttir, er úr leik af sömu ástæðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert