Getum ekki látið sjá okkur svona

Baldur Sigurðsson sækir að marki Víkinga en til varnar er …
Baldur Sigurðsson sækir að marki Víkinga en til varnar er Róbert Örn Óskarsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við urðum bara undir í baráttunni. Við byrjuðum illa en vöknuðum aðeins til lífsins eftir að við jöfnuðum en annars fannst mér við ekki mæta til leiks í kvöld,“ sagði Hólmbert Aron Friðjónsson sóknarmaður Stjörnunnar, við mbl.is eftir tap sinna manna gegn Víkingi í Pepsi-deildinni í kvöld.

„Við vorum eftir Víkingum nánast alla leikinn og það gekk hreinlega ekkert upp hjá okkur. Við náðum ekki að svara grimmum leik Víkingana. Við vissum vel að þeir myndu mæta brjálaðir í þennan leik en við náðum ekki að svara því. Við létum þá tækla okkur út um allan völl og við svöruðum ekki í sömu mynt.

Við töpuðum fyrir FH og ætluðum okkur svo sannarlega að svara fyrir og það komast aftur á toppinn en þessi frammistaða skilaði því ekki. Nú verðum við bara að rífa okkur upp og við munum kveikja í okkur og mæta eins og menn í næsta leik. Við getum ekki látið sjá okkur svona,“ sagði Hólmbert Aron.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert