Sætur sigur Víkinga í Garðabænum

Ragnar Bragi Sveinsson sá um að tryggja Víkingum sætan sigur gegn Stjörnunni, 2:1, þegar liðin áttust við í lokaleik 7. umferðar Pepsi-deildar karla í knattspyrnu á Samsung-vellinum í Garðabæ í kvöld.

Eftir afar rólegan fyrsta stundarfjórðung leiksins litu tvö mörk dagsins ljós með mínútu millibili. Alex Freyr Hilmarsson kom Víkingum yfir á 15. mínútu með skoti af stuttu færi en Víkingar voru vart hættir að fagna markinu þegar bakvörðurinn Jóhann Laxdal nýtti sér klaufagang í vörn Víkinga og skoraði með föstu skoti.

Víkingar gáfu talsvert eftir síðasta hálftímann í fyrri hálfleik og Stjörnumenn náðu ágætri pressu á mark gestanna og í tvígang var Róbert Örn Óskarsson vel á verði í marki Víkinganna. Stjörnumenn urðu fyrir áfalli á 36. mínútu þegar framherjinn kraftmikli Guðjón Baldvinsson var borinn af velli eftir að hafa meiðst á hné.

Víkingar voru sterkari aðilinn megnið af síðari hálfleik og Ragnar Bragi skoraði sigurmarkið 20 mínútum fyrir leikslok. Stjörnumenn gerðu sig ekki líklega til að jafna metin gegn baráttuglöðu og vel skipulögðu liði Víkings sem með sigrinum komst upp í sjötta sæti deildarinnar en Stjarnan, sem tapaði öðrum leik sínum í röð, mistókst að komast í toppsætið og er í þriðja sæti deildarinnar.

Stjarnan 1:2 Víkingur R. opna loka
90. mín. Leik lokið +4 Víkingur vann baráttusigur.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert