Á eftir að stríða honum lengi á þessu

Þorsteinn Már Ragnarsson sækir að Sveini Sigurði Jóhannessyni, markverði Stjörnunnar, …
Þorsteinn Már Ragnarsson sækir að Sveini Sigurði Jóhannessyni, markverði Stjörnunnar, sem greip boltann í þetta sinn. mbl.is/Alfons

„Það er frábært að ná loksins sigri hérna á heimavelli. Við þurfum að halda svona áfram,“ sagði Þorsteinn Már Ragnarsson sem lagði upp bæði mörk Víkings Ó. þegar liðið vann Stjörnuna, 2:0, í 8. Umferð Pepsideildarinnar í knattspyrnu.

Víkingar náðu góðu jafntefli gegn Fjölni í Grafarvogi í síðasta leik og lönduðu svo sínum fyrsta heimasigri í kvöld.

„Við erum að byggja ofan á þetta kerfi sem við höfum verið að spila og það hefur verið að virka vel. Við verðum bara að halda áfram að bæta okkur í næsta leik,“ sagði Þorsteinn, sem lék með Guðmundi Steini Hafsteinssyni í fremstu víglínu og lagði upp mark fyrir bæði Guðmund og Kwame Quee í leiknum:

„Þetta er uppleggið, að ég hlaupi inn fyrir og elti sendingar þangað, og það gekk sem betur fer upp í dag. Þeir [Quee og Guðmundur Steinn] voru fljótir að koma og klára færin,“ sagði Þorsteinn, sem fór illa með fyrrverandi liðsfélaga sinn hjá Víkingi, Brynjar Gauta Guðjónsson, í aðdraganda seinna marksins:

„Það er alltaf gaman að spila á móti Brynjari Gauta, sérstaklega þegar eitthvað svona gerist, og ég á eftir að stríða honum lengi á þessu,“ sagði Þorsteinn.

Víkingar eru áfram á botni deildarinnar, en nú með sjö stig og rétt á eftir næstu liðum.

„Þessi þrjú stig eru stór stig fyrir okkur, sérstaklega því þau koma á móti Stjörnunni sem er með gríðarlega sterkt lið. Við erum í baráttu á botninum og það eru sem betur fer mörg lið í kringum okkur. Ef við höldum áfram að spila svona þá verður þetta jákvætt. Við þurftum svona sigur, sem við getum byggt ofan á. Það sýndu allir frábæra frammistöðu í dag, börðust allir fyrir hvern annan og það sem við æfðum í vikunni gekk allt upp. Ég var hrikalega ánægður með strákana í dag,“ sagði Þorsteinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert