„Ég var orðinn frekar stressaður“

Gunnlaugur Jónsson.
Gunnlaugur Jónsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég er nú ekki sérstaklega sáttur við spilamennskuna en sáttur við úrslitin,“ sagði Gunnlaugur Jónsson, þjálfari ÍA, í samtali við mbl.is eftir heldur betur dramatískan sigur á Fjölni, 3:1, í áttundu umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu í kvöld. Skagamenn voru manni fleiri síðasta hálftímann en tryggðu sér sigurinn með tveimur mörkum í uppbótartíma.

„Mér fannst við dálítið óþolinmóðir að lenda manni fleiri, en við vorum ógnandi síðustu mínúturnar og maður hafði það á tilfinningunni að það kæmi mark – sem það gerði. Og ég er ánægður með það,“ sagði Gunnlaugur, en það var ekki að sjá lengi vel að Skagamenn væru manni fleiri.

„Við vorum dálítið óskynsamir með boltann, vorum að drífa okkur þó það hafi lagast þegar leið á leikinn. Það skiptir engu máli í dag, við náðum þessum sigri sem þurfti sem var heldur betur mikilvægt. Þetta var hálfgerður sex stiga leikur gegn Fjölni og ég er fyrst og fremst í skýjunum með sigurinn,“ sagði Gunnlaugur.

En var hann ekki orðinn stressaður í stöðunni 1:1 og komið fram í uppbótartíma?

„Ég get ekki neitað því. Við vorum að fá færi og vorum að skapa hættur en jú, ég var orðinn frekar stressaður ég viðurkenni það,“ sagði Gunnlaugur Jónsson, þjálfari ÍA, í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert