Rauða spjaldið sló okkur út af laginu

Ágúst Þór Gylfason.
Ágúst Þór Gylfason. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er að sjálfsögðu súrt að tapa hérna,“ sagði Ágúst Gylfason, þjálfari Fjölnis, í samtali við mbl.is eftir 3:1-tap liðsins fyrir ÍA í áttundu umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu á Akranesi í kvöld. Heimamenn skoruðu tvö mörk í uppbótartíma og tryggðu sér sigurinn eftir að hafa verið manni fleiri síðasta hálftímann.

„Mér fannst við vera sterkari aðilinn en fáum mark í andlitið í lok fyrri hálfleiks og svo rauða spjaldið í seinni hálfleik sem sló okkur út af laginu. Það er erfitt að hlaupa og menn voru orðnir þreyttir og misstu kannski svolítið einbeitinguna þar sem Skagamennirnir gengu á lagið. Ég óska þeim bara til hamingju með það,“ sagði Ágúst og gat ekki verið ósáttur við rauða spjaldið sem Mario Tadejevic fékk að líta.

„Við áttum horn og þeir bruna í sókn. Hann er kominn einn inn fyrir og minn maður fellir hann, svo ég held að þetta hafi verið klárt rautt spjald. Þegar við erum orðnir einum færri og Skagamenn koma framar á völlinn þá fengum við fullt af tækifærum til þess að skora. Það hefði breytt leiknum en við gerðum það ekki og Skagamenn kláruðu þetta vel í uppbótartíma,“ sagði Ágúst.

Fjölnir er nú með níu stig, tveimur meira en botnliðin og er liðið komið í harða fallbaráttu.

„Við þurfum bara að hugsa um okkur sjálfa og hala inn stig. Við vorum að spila ágætlega í dag og áttum skilið að fá eitthvað út úr þessum leik, en röð atvika tók okkur úr skorðum og við náðum ekki að fylgja því eftir,“ sagði Ágúst Gylfason í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert