Skagamenn skoruðu tvö í uppbótartíma

ÍA vann sinn annan sigur í sumar í Pepsi-deild karla í knattspyrnu þegar Fjölnir kom í heimsókn í 8. umferð deildarinnar. Skagamenn voru manni fleiri síðasta hálftímann og tryggðu sér sigurinn með tveimur mörkum í uppbótartíma, lokatölur 3:1.

Fyrri hálfleikurinn var ansi bragðdaufur þó Fjölnismenn hafi verið ívið sterkari. Það fór þó að lifna yfir hlutunum á fimm mínútna kafla rétt fyrir hlé þegar tvö mörk litu dagsins ljós.

Fyrst skoraði Birnir Snær Ingason á 38. mínútu og kom Fjölni yfir eftir fína rispu upp vinstri kantinn. Aðeins fimm mínútum síðar jafnaði hins vegar Hafþór Pétursson fyrir ÍA þegar hann tók boltann á lofti innan teigs og skilaði honum upp í markhornið. Staðan 1:1 í hálfleik.

Það dró svo aftur til tíðinda á 58. mínútu. Fjölnir fékk þá hornspyrnu en Skagamenn hreinsuðu frá. Tryggvi Hrafn Haraldsson fékk boltann og spretti úr spori en var straujaður niður af Mario Tadejevic sem var aftasti varnarmaður Fjölnis. Kárt rautt spjald og gestirnir manni færri síðasta hálftímann eða svo.

Leikurinn var hins vegar enn í járnum en undir lokin var loks að sjá að Skagamenn væru manni fleiri. Sex mínútum var bætt við venjulegan leiktíma og snemma í uppbótartímanum skoraði Steinar Þorsteinsson fyrir ÍA og kom þeim í 2:1. En dramatíkin hélt áfram.

Fjölnir reyndi að jafna metin og fékk hornspyrnu þegar langt var liðið á uppbótartímann. Þórður Ingason kom úr marki Fjölnis og inn í teiginn, en var of seinn til baka og Þórður Þorsteinn Þórðarson innsiglaði 3:1-sigur Skagamanna með skoti fyrir aftan miðju. Mögnuð dramatík.

Þetta var annar sigur Skagamanna í sumar og eru þeir nú með 7 stig í harðri fallbaráttu. Fjölnir er með tveimur stigum meira.

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu hér á mbl.is, en nánar verður fjallað um leikinn í íþróttablaði Morgunblaðsins á morgun. Viðtöl koma hingað á vefinn síðar í kvöld.

ÍA 3:1 Fjölnir opna loka
90. mín. Það verða að minnsta kosti sex mínútur í uppbótartíma. Og Skagamenn virðast hafa fundið kraftinn...
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert