Víkingur vann Stjörnuna í Ólafsvík

Víkingur Ó. vann í kvöld fyrsta heimasigur sinn í Pepsideild karla í knattspyrnu í sumar þegar liðið hafði betur gegn Stjörnunni, 2:1. Víkingar eru því komnir með sjö stig eftir átta leiki en Stjarnan er með 13 stig.

Víkingar léku afar vel í kvöld og vörðust skipulega gegn Stjörnunni, sérstaklega í föstum leikatriðum en gestirnir fengu heilar 15 hornspyrnur án þess að nýta þær.

Þorsteinn Már Ragnarsson lagði upp fyrsta mark leiksins á 17. mínútu eftir að hafa fengið boltann á hægri kantinum. Hann renndi boltanum á Kwame Quee sem skoraði með hnitmiðuðu skoti neðst í hægra hornið.

Snemma í seinni hálfleik lagði Þorsteinn upp seinna mark Víkinga eftir frábær tilþrif á vinstri kantinum, en hann renndi þá boltanum inn í vítateiginn á Guðmund Stein Hafsteinsson sem þrumaði honum í þverslá og inn.

Sóknarþungi Stjörnunnar jókst sífellt þegar á leið og fékk Jósef Kristinn Jósefsson frábært færi til að minnka muninn en Cristian Martínez sá við honum. Stjarnan náði hins vegar að minnka muninn fimm mínútum fyrir leikslok þegar Hilmar Árni Halldórsson skoraði af öryggi úr vítaspyrnu. Taugarnar voru þandar á lokamínútunum en Víkingum tókst að halda forystunni og landa dísætum sigri.

Víkingur Ó. 2:1 Stjarnan opna loka
90. mín. Hólmbert Aron Friðjónsson (Stjarnan) á skalla sem fer framhjá Laus skalli í baráttu við varnarmenn.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert