„Er ekki í lagi heima hjá þér?“

Edda Garðarsdóttir, þjálfari KR.
Edda Garðarsdóttir, þjálfari KR. mbl.is/Golli

Edda Garðarsdóttir, þjálfari KR, var svekkt eftir 5:0 tap gegn Val í 9. umferð Pepsi-deildar kvenna í knattspyrnu í kvöld. Valur komst yfir strax á 4. mínútu og hafði öll tök á leiknum allt til loka og fannst Eddu að lið sitt hefði hengt hausinn of snemma.

„Þetta var ömurleg byrjun á leiknum og það drepur okkur andlega. Við komum betur út í þeim seinni en þær voru bara betri, við vorum kannski aðeins of mikið af horfa í grasið. Ég geng ekki sátt frá borði eftir svona tap en maður verður að horfa fram á við.“

Edda var rekin upp í stúku af Gunnþóri Steinari Jónssyni dómara í seinni hálfleik fyrir munnsöfnuð en hún var ekki sátt með þá ákvörðun.

„Ég æsti mig aðeins en sagði engin ljót orð eða neitt. Ég sagði við hann, ertu ekki að grínast, er ekki í lagi heima hjá þér? Dæmi hver fyrir sig.“

Ingibjörg Valgeirsdóttir, markvörður KR, fékk á sig fimm mörk í kvöld en eitt þeirra var óheppilegt þegar laust skot frá Ariana Calderon sigldi beint yfir hana. Edda vildi þó ekki skella skuldinni alfarið á markmanninn sinn.

„Ég veit það ekki, ég þarf að skoða þetta aftur. Það sem Valur gerir vel er að keyra upp kantana og koma með flotta bolta fyrir og ég veit ekki hvað Ingibjörg hefði getað gert í því og svo grípur vindurinn inn í seinasta markinu. Ég var það langt í burtu að ég sá þetta ekki alveg,“ sagði hún að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert