Fyrst og fremst ótrúlega stoltur

Úlfur Blandon.
Úlfur Blandon. mbl.is/Kristinn Magnússon

Úlfur Blandon, þjálfari Vals, var að vonum sáttur eftir sannfærandi 5:0 sigur liðs síns gegn KR á Alvogen-vellinum í 9. umferð Pepsi-deildar kvenna í knattspyrnu í kvöld.

„Ég er fyrst og fremst ótrúlega stoltur af stelpunum í dag. Mér fannst við standa okkur feykilega vel og liðsheildin skilaði þessum sigri í dag.“

Þessi fimm marka sigur var síst of stór en Valskonur voru gífurlega öflugar í kvöld. Úlfur segist hafa verið búinn að kortleggja KR-liðið vel.

„Við skorum snemma og þá er erfitt fyrir andstæðinginn að koma til baka. Við vorum búin að greina KR-liðið vel og reyndum að sækja í ákveðin svæði og við uppskerum þrjú mörk upp úr því.“

Eftir erfiða byrjun á mótinu, Valur tapaði þremur af fyrstu fjórum leikjum sínum, hefur liðið nú unnið fimm deildarleiki í röð, hefur eitthvað breyst?

„Í rauninni hefur ekkert breyst, ég nenni ekki að fara að grafa aftur í byrjun tímabils, en við erum búin að vinna sex leiki í röð og við einbeitum okkur að einum leik í einu.“

Mikið er um meiðsli í herbúðum Vals en þær Margrét Lára Viðarsdóttir, Elísa Viðarsdóttir og Dóra María Lárusdóttir hafa allar slitið krossband í sumar og verða lengi frá. Úlfur er þó ánægður með breidd liðsins og þá leikmenn sem hafa komið inn í liðið.

„Þegar við vinnum 5:0 hafa þeir leikmenn sem koma inn staðið sig frábærlega. Það er vont að missa leikmenn í meiðsli en það kemur maður í manns stað.“

Getur Valur enn þá orðið Íslandsmeistari?

„Við erum ekkert að spá í það núna. Við tökum einn leik í einu og reynum að sýna góða spilamennsku. Ég er ánægður með stuðning áhorfenda í dag sem voru ánægðir með okkur og fögnuðu með okkur að leikslokum. Við erum að reyna að búa til ákveðna stemningu og hafa gaman af fótbolta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert