Skandall að hún sé ekki í U16

Halldór Jón Sigurðsson fagnar með sínu liði.
Halldór Jón Sigurðsson fagnar með sínu liði. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

„Þetta var mjög erfitt því FH-liðið spilaði frábæran leik og þær voru virkilega góðar. FH heillaði mig mikið með spilamennsku sinni í dag og þær eiga hrós skilið,“ sagði Halldór Jón Sigurðsson, þjálfari Þórs/KA, eftir 1:0 sigur á FH á útivelli í Pepsi-deild kvenna í dag. Sigurinn þýðir að Þór/KA er með fullt hús stiga eftir fyrri umferð Íslandsmótsins. 

„Ég er ánægður með að við héldum áfram allan leikinn og náðum seiglumarki inn í lokin. Þetta var vinnusigur, þar sem við gáfumst aldrei upp. Við höfum trú á að við vinnum alla leiki og við ætlum að vinna alla leiki.“

Hin 15 ára Karen María Sigurgeirsdóttir gerði sigurmarkið á 89. mínútu, tæpum tveimur mínútum eftir að hún kom inn á. 

„Varamenn koma inn á og auðvitað vonast maður til að þeir geti gert gæfumuninn og breytt leiknum. Karen gerði það svo sannarlega. Margrét átti frábæra sendingu á Huldu Björgu sem átti fyrirgjöfina. Margrét kom líka mjög vel inn í leikinn.“

„Karen er virkilega öflugur leikmaður og á framtíðina fyrir sér. Hún var ekki valin í lokahópinn hjá U16 sem er algjör skandall, verandi í besta liðinu í deildinni samkvæmt töflunni og er að spila. Ég er ósáttur með það, en hún á framtíðina fyrir sér ef hún heldur rétt á spilunum,“ sagði Halldór. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert