Engar afsakanir lengur í boði fyrir Þorstein Má

Þorsteinn Már Ragnarsson og Sveinn Sigurður Jóhannesson í baráttu um …
Þorsteinn Már Ragnarsson og Sveinn Sigurður Jóhannesson í baráttu um boltann í leik Víkings og Stjörnunnar á mánudag. Ljósmynd/Alfons Finnsson

Létt var yfir Þorsteini Má Ragnarssyni í gærmorgun eftir 2:1 sigur Víkings á Stjörnunni í Ólafsvík í Pepsi-deildinni kvöldið áður. „Þetta var risastór sigur fyrir okkur og einmitt það sem við þurftum núna. Ekki hefur verið mikil söfnun á stigum en þessi þrjú stig eru gríðarlega góð fyrir okkur. Stjarnan er frábært lið og með meiri gæði en við. Sjálfsagt eru þeir miklu betri í fótbolta en við hvað spilið varðar en við sýndum góða baráttu og spiluðum hver fyrir annan. Það skóp þennan sigur myndi ég segja,“ sagði Þorsteinn, sem þótti leika afskaplega vel í leiknum.

Í umsögn Sindra Sverrissonar um frammistöðu Þorsteins í greininni í Morgunblaðinu í gær segir meðal annars: „Þorsteinn Már Ragnarsson gat ekki beitt sér að fullu framan af móti vegna meiðsla en er greinilega kominn á fulla ferð ef miðað er við leikinn í gær. Hann átti risastóran þátt í sigrinum með sínu einstaklingsframtaki í seinna marki Víkinga, og gerði einnig vel þegar hann lagði fyrra markið upp fyrir hinn fljóta og skemmtilega landsliðsmann Sierra Leone; Kwame Quee.“

Aðgerðin gerði sitt gagn

Þorsteinn missti svolítið úr hjá Víkingi síðasta sumar og fór í aðgerð í vetur. Hann segist nú hafa náð sér að fullu og kennir sér hvergi meins. „Ég fór í aðgerð í vetur, en ég hafði verið meiddur frá miðju tímabili í fyrra og í allan vetur. En ég er loksins að komast í betra form og sé fram á að geta spilað betri bolta á næstunni. Ég er laus við meiðslin enda gekk aðgerðin vel. Ég er orðinn 100% tilbúinn og hef engar afsakanir lengur,“ útskýrði Þorsteinn og sagðist jafnframt finna fyrir framförum hjá liðinu í heild sinni þessa dagana.

Viðtalið í heild ásamt úrvalsliði og uppgjöri eftir 8. umferð Pepsi-deildarinnar má sjá í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert