Á þriðja þúsund manns fylgir landsliðinu

Íslenskir stuðningsmenn verða áberandi í Hollandi.
Íslenskir stuðningsmenn verða áberandi í Hollandi. mbl.is/Golli

Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu mun fá góða hvatningu frá íslenskum stuðningsmönnum á lokakeppni Evrópumótsins í Hollandi sem hefst í næsta mánuði.

Á fjölmiðlafundi sem nú stendur yfir hjá KSÍ þar sem lokahópurinn er tilkynntur kom fram að markmiðið hafi verið að eiga 10% stuðningsmanna á hverjum leik hjá Íslandi. Eins og staðan er í dag verður það gott betur.

Miðar sem seldir hafa verið í gegnum KSÍ hafa verið í kringum 2 þúsund á hvern leik. Einnig eru að seljast miðar beint í gegnum UEFA, svo reiknað er með vel á þriðja þúsund Íslendinga á hvern leik í riðlakeppninni.

Það gæti því verið að um 20-25% af sætaframboði á leikjum Íslands í riðlakeppninni verði skipuð íslenskum stuðningsmönnum, en leikvangarnir taka á bilinu 12-14 þúsund manns.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert