Ánægjulegt að skora og sigra

Ásgeir Marteinsson leikur á ÍR-inginn Jón Arnar Barðdal í leiknum …
Ásgeir Marteinsson leikur á ÍR-inginn Jón Arnar Barðdal í leiknum í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Ásgeir Marteinsson sóknarmaður HK sem skoraði fyrra markið í sigri liðsins á ÍR, 2:0, í 1. deild karla í knattspyrnu í Kórnum í kvöld sagði að sigurinn væri gríðarlega mikilvægur fyrir áframhaldið hjá liðinu í deildinni.

HK var búið að tapa fjórum leikjum í röð og var komið nærri neðstu liðunum fyrir leikinn. „Já, það er búið að vera ströggl á okkur undanfarið. Það var kannski ekki komið of mikið stress í mannskapinn, en liðið hafði spilað illa, maður vissi að það gæti miklu betur og við þurftum að sýna það í kvöld," sagði Ásgeir við mbl.is.

„Þetta var algjör sex stiga leikur og skipti öllu máli að komast yfir," sagði Ásgeir sem skoraði fyrra mark liðsins á 16. mínútu af miklu harðfylgi. „Ég fékk boltann eftir innkast, missti hann í eitthvert klafs en náði honum aftur, kom honum á vinstri fótinn og náði góðu skoti. Það var mjög ánægjulegt að skora, þetta er fyrsta markið mitt í deildinni og það var tími kominn til að brjóta ísinn," sagði Ásgeir þegar hann var beðinn um að lýsa markinu.

„Við vorum góðir á köflum en seinni hálfleikur var ekkert sérstakur. Við bökkuðum of mikið og hleyptum ÍR-ingunum of framarlega á völlinn sem við þurftum alls ekki að gera. Við hefðum mátt höndla stöðuna betur og halda boltanum. Þeir hefðu alveg getað náð að pota inn einhverju heppnismarki þegar við vorum komnir svona aftarlega. En sem betur fer gerðu þeir það ekki og við náðum að klára þetta með því að skora annað mark. Ég veit ekki hvort seinna markið var rangstaða eða réttstaða, en við tökum það," sagði Ásgeir en Bjarni Gunnarsson innsiglaði sigurinn á 87. mínútu.

Hann kom aftur til HK í vetur eftir þrjú ár með Skagamönnum. „Það er frábært að vera kominn til baka, mér líður alltaf mjög vel í HK," sagði Ásgeir Marteinsson en hann lék síðast með liðinu þegar það vann 2. deildina árið 2013.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert