Andrúmsloftið hefur verið þungt

Það var hiti í mönnum í Laugardal í kvöld. Hlynur …
Það var hiti í mönnum í Laugardal í kvöld. Hlynur er númer 14 á myndinni. mbl.is/Árni Sæberg

„Við vorum þéttir fyrir og þurftum að loka fyrir lekann sem hefur verið. Við höfum verið að fá allt of mikið á mörkum á okkur. Við vorum skipulagðir og spiluðum varlega, þetta kom að lokum," sagði Hlynur Atli Magnússon, miðjumaður Fram eftir 1:0 sigur á Gróttu í Inkasso-deildinni, 1. deild karla í knattspyrnu í dag. 

„Við ákváðum að halda hreinu og koma öflugir inn í seinni hálfleikinn. Við létum þá aðeins finna fyrir því og við skoruðum loksins úr föstu leikatriði, það var kærkomið."

Fram hafði tapað tveimur leikjum í röð fyrir leikinn í kvöld.

„Þetta voru erfiðir leikir á móti Þór og Fylki. Við vorum sjálfum okkur verstir á móti Þór en ekki eins daprir á móti Fylki. Við þurfum á þessum þremur stigum í kvöld að halda. Það var virkilega mikilvægt upp á það að halda okkur í efri hlutanum í þessari deild. Við ætlum okkur stóra hluti og þetta var í takti við það."

Ásmundur Arnarsson var rekinn sem þjálfari Fram á þriðjudaginn var og viðurkennir Hlynur að andrúmsloftið í félaginu hafi verið þungt eftir fréttirnar af brottrekstri Ásmundar. 

„Andrúmsloftið hefur verið þungt eins og venjulega þegar það eru þjálfaraskipti á miðju tímabili. Ég er að upplifa þetta í fyrsta skipti og það er búið að vera skrítið andrúmsloft, við tækluðum það og ákváðum að taka þennan leik og skilja hitt eftir."

„Mér fannst þetta sjokkerandi og ég bjóst ekki við þessu. Ég var alls ekki hrifinn af þessu. Ég hef ekkert heyrt, ég veit bara að Óli Brynjólfs og Tómas Ingason áttu að stýra okkur í þessum leik, en hvað sem gerist í framtíðinni er þeirra í stjórninni að ákveða og okkar að fylgja. Við getum ekkert í því gert og ég reyni lítið að spá í því. Það væri gott að fá þjálfara með mikinn metnað sem er í takt við okkar metnað," sagði Hlynur Atli. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert