Burt með það neikvæða og verum töffarar

Freyr Alexandersson.
Freyr Alexandersson. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta var erfitt en skemmtilegt,“ sagði Freyr Alexandersson, landsliðsþjálfari kvenna í knattspyrnu, í samtali við mbl.is eftir að hann opinberaði landsliðhópinn sem fer á Evrópumótið í Hollandi í sumar.

Hann viðurkennir að það hafi verið nokkur höfuðverkur að velja lokahópinn, en hann sé mjög sáttur við þann hóp sem hann hefur í höndunum. Hvert áfallið á fætur öðru mætti liðinu á vormánuðum vegna mikilla meiðsla og Freyr segir að hann hafi haft í mörg horn að líta.

„Þetta var krefjandi tími. Við vorum að kljást við hluti og vorum í stöðu sem við áttum engan veginn von á að vera í á þessum tímapunkti,“ sagði Freyr, sem meðal annars var að vinna í því að breyta um leikskipulag.

„Sem betur fer vorum við farin að vinna með það í október og ég er mjög ánægður að hafa gert það á þeim tímapunkti. Annars hefðum við ekki náð að þróa liðið á þann stað þar sem það er í dag,“ sagði Freyr, en á síðustu vikum hefur farið að birta til.

„Það kom sá tímapunktur þar sem eitthvað gerðist hjá liðinu og hjá mér – burt með þetta neikvæða sem hefur gerst, öll áföllin og sorgina hjá sumum, heldur setjum allan kraft í þetta og verðum svolitlir töffarar. Og ég finn það núna í hópnum að það er ofboðslegt stolt og gríðarlegur kraftur að keyra á þetta. Okkur er alveg sama á móti hverjum við spilum, við erum að gera það fyrir Ísland og það fylgir því mikið stolt.“

Freyr Alexandersson.
Freyr Alexandersson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Loka stundum augunum að horfa á leikina

Íslenska liðið kemur saman til æfinga þann 3. júlí og æfir í Reykjavík og á Selfossi áður en haldið er til Hollands þann 14. júlí. Enn eru tvær umferðir eftir af Pepsi-deildinni, en mun Freyr krossa fingur að ekkert gerist fyrir leikmenn í þeim leikjum?

„Ég viðurkenni það alveg að stundum loka ég augunum þegar ég horfi á leikina. En ég hef sjálfur unnið mikið með andlega þáttinn; að ef eitthvað gerist þá gerist það bara. En auðvitað vona ég að ekkert komi fyrir núna,“ sagði Freyr, sem hefur valið átta leikmenn til taks ef eitthvað gerist.

„Þær verða hjá sínum félagsliðum og ef eitthvað kemur upp get ég kallað þær inn. Við höfum alltaf tök á því að skipta um leikmann þar til flautað er til leiks 18. júlí. Miðað við allt sem er búið að gerast hjá okkur þá veit maður ekkert hvað mun gerast á næstu vikum.

Harpa Þorsteinsdóttir.
Harpa Þorsteinsdóttir. mbl.is/Golli

Átti heiðarlegt samtal við Hörpu

Harpa Þorsteinsdóttir, framherji Stjörnunnar, er í hópnum en hún hefur byrjað einn leik í Pepsi-deildinni í sumar. Hún ól son í vetur og er að komast aftur af stað, en það var fundur sem Freyr átti með Hörpu í vikunni sem gerði útslagið um valið.

„Við urðum að eiga þetta heiðarlega samtal um hennar hlutverk. Harpa hefur verið stjarna í liðinu en er að koma til baka en í öðru hlutverki. Hún verður mjög mikilvægur leikmaður innan hópsins í því að koma inn í leiki. Eftir samtalið við hana og heyrði hversu ánægð hún var með það hlutverk þá var enginn vafi hjá mér að velja hana,“ sagði Freyr.

Hann talaði skýrt um þau markmið sem liðið hefur í Hollandi og þar er fyrsti áfangi að komast upp úr riðlinum.

„Það er það sem við verðum að gera; finna leið til þess að komast upp úr riðlinum og eitthvað sem allir hafa einbeitinguna á. Auðvitað eigum við okkur drauma og allt getur gerst í úrslitakeppninni. Ef við náum því að komast upp úr þessum erfiða riðli þá sé ég fyrir mér að allt getur gerst og þá gerum við ekkert annað en að keyra á þetta og berjast um medalíur,“ sagði Freyr Alexandersson við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert