Framarar upp í þriðja sæti

Haukur Lárusson með boltann í leiknum í kvöld. Viktur Smári …
Haukur Lárusson með boltann í leiknum í kvöld. Viktur Smári Segatta fylgist með. mbl.is/Árni Sæberg

Framarar unnu sinn fyrsta sigur síðan 3. júní er Grótta kom í heimsókn á Laugardalsvöllinn í Inkasso-deildinni, 1. deild karla í knattspyrnu í dag. Lokatölur urðu 1:0 fyrir Fram. Miðvörðurinn Dino Gavric skoraði eina markið á 52. mínútu og fór Fram upp í þriðja sæti deildarinnar með sigrinum. 

Það var lítið um gæði í fyrri hálfleik, en báðum liðum hefur gengið illa að undanförnu og var ljóst að það vantaði sjálfstraust í leikmenn. Allar fjórar marktilraunir Gróttu voru nokkuð fjarri markinu og það sama var hægt að segja um tvær tilraunir Fram í hálfleiknum. Staðan í leikhléi var því markalaus.

Það tók Framara hins vegar aðeins sjö mínútur að skora í síðari hálfleik. Dino Gavric skallaði boltann þá í autt markið eftir fyrirgjöf Simon Smidt og mislukkað úthlaup Terrance Dieterich í marki Gróttu. Eftir markið sóttu Framarar stíft og Alex Freyr Elísson og Guðmundur Magnússon fengu sitt hvort góða færið stuttu seinna en í bæði skiptin varði Dieterich vel frá þeim.

Skömmu síðar fékk Helgi Guðjónsson svo úrvalsfæri þegar hann komst einn gegn Dieterich, lék á hann en Aleksandar Kostic varði skotið hans á marklínu. Segja mátti að annað mark Fram lægi í loftinu.

Eftir því sem leið á seinni hálfleikinn róaðist leikurinn töluvert og Framarar sigldu þremur stigum í hús. Fram fór upp í 14 stig og í þriðja sæti en Grótta er í 11. sæti, sem er fallsæti, með aðeins fimm stig. Grótta hefur ekki unnið leik síðan 20. maí. 

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu á mbl.is

Fram 1:0 Grótta opna loka
90. mín. Ásgrímur Gunnarsson (Grótta) fær gult spjald Brýtur á Alex sem var á leiðinni í skyndisókn.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert