Freyr sagði Þjóðverjum að haga sér

Freyr Alexandersson, landsliðsþjálfari kvenna.
Freyr Alexandersson, landsliðsþjálfari kvenna. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég er mjög stoltur af því hvað Íslendingar ætla að mynda mikla stemningu þarna,“ sagði Freyr Alexandersson, landsliðsþjálfari kvenna í knattspyrnu, í samtali við mbl.is um þann fjölda stuðningsmanna sem er áætlaður á EM í Hollandi í næsta mánuði.

Reiknað er með að á þriðja þúsund íslenskir stuðningsmenn verði á þremur leikjum Íslands í riðlakeppninni og má búast við að um 20% af sætahlutfallinu verði skipað syngjandi Íslendingum

„Ég veit að þetta mun sjokkera stóru knattspyrnusamböndin, sem eru stundum svolítið hrokafull,“ sagði Freyr, sem sjálfur sendi einni stórþjóð skýr skilaboð á dögunum.

„Ég átti mjög áhugaverðan fund með Þýskalandi eftir að við drógumst með þeim í HM-riðilinn. Þar skinu hortugheitin í gegn og hvernig er litið niður á Ísland. Ég sagði þá við þau: Þið skuluð aðeins fara að haga ykkur. Við erum búin að selja þrefalt fleiri miða en þið á EM. Passið ykkur bara að fara ekki yfir strikið,“ sagði Freyr.

Hann er afar spenntur fyrir þeim stuðningi sem stefnir í að Ísland fái á EM.

„Mig langar að íslenskir stuðningsmenn fari á EM, komi inn með hvelli og bara sjokkeri evrópskan fótbolta. Ég gæti alveg trúað því að við gerum það og það er bara geggjað fyrir íslenskan fótbolta,“ sagði Freyr Alexandersson við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert