Reyna að slá áhorfendamet á Laugardalsvelli

Hér má sjá hugmyndina að uppsetningu Laugardalsvallar, en leikurinn ber …
Hér má sjá hugmyndina að uppsetningu Laugardalsvallar, en leikurinn ber heitið „The Super Match“. Ljósmynd/KSÍ

Í hádeginu í dag hefst miðasala á midi.is á leik ensku úrvalsdeildarliðanna Manchester City og West Ham sem mætast á Laugardalsvelli 4. ágúst næstkomandi. Reynt verður að slá áhorfendamet á vellinum.

Búið er að ákveða uppsetningu vallarins og miðað við það er mögulegt að koma 20.775 manns á völlinn með því að bæta við sætum og nota gömlu stæðin. Núverandi áhorfendamet voru 20.200 seldir miðar á vináttulandsleik Íslands og Ítalíu árið 2004.

„Reglur UEFA leyfa okkur ekki að hafa bráðabirgðastúkur á alþjóðlegum landsleikjum. Þar sem við erum vön því að selja upp miða á nokkrum mínútum þurfum við fljótlega að stækka völlinn. Þetta er tækifæri til að bjóða upp á frábæran leik og okkar frábæru stuðningsmenn,“ sagði Guðni Bergsson, formaður KSÍ, í aðdraganda leiksins.

Bráðabirgðastúkurnar eru breytilegar og mun vera hægt að haga fjölda sæta eftir miðasölu. Í fyrsta hluta miðasölunnar verður opnað fyrir sölu á öllum miðum nema í bráðabirgðastúkurnar. Þegar þeir miðar seljast upp mun hefjast sala á miðum fyrir standandi hluta vallarins.

Viðburðarstjórnandi leiksins sem er kallaður „Super Match“ er Sport & Event í Svíþjóð. Fyrirtækið hefur haldið sex vel heppnaða leiki í Svíþjóð og Finnlandi síðan árið 2012. Miðaverð á leikinn er í samræmi við stærð hans og er á bilinu 5.899 – 16.899 krónur, segir í tilkynningu, en miðasala fer fram á midi.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert