Tekur sinn toll en ég klára mín verkefni

Harpa Þorsteinsdóttir er í landsliðshópnum fyrir EM í Hollandi.
Harpa Þorsteinsdóttir er í landsliðshópnum fyrir EM í Hollandi. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Harpa Þorsteinsdóttir, framherji Stjörnunnar var valin í lokahóp íslenska landsliðsins fyrir EM í Hollandi í sumar. Harpa hefur aðeins byrjað einn leik á árinu eftir að hafa eignast barn í lok febrúar síðastliðinn. Hún var að sjálfsögðu ánægð með að vera valin í hópinn og segist hún vera í fínu standi, þó hún eigi mikið inni. 

„Ég er búin að vera í góðu sambandi við Frey (Alexandersson) undanfarið og ég hef látið hann vita hvernig mér gengur að koma til baka og hvernig formið á mér er. Ég er búin að vinna vel í mínum málum en ég á enn þá mikið inni. Það var mjög ánægjulegt að hann skuli bera þetta traust til mín."

„Ég er á ágætis stað miðað við stuttan tíma og ég finn mikinn mun á mér með hverri vikunni sem líður. Ég er mjög jákvæð yfir forminu."

Harpa segir það vissulega álag að ala upp ungabarn og vinna í að komast í landsliðið á sama tíma. 

„Þetta tekur sinn toll en ég klára mín verkefni. Það þarf skipulag, góðan stuðning, góða fjölskyldu og góðan maka til að svona gangi upp."

Hún segir hlutverk sitt í Hollandi snúast um meira en það sem hún gerir innan vallar. 

„Mitt hlutverk er núna að miðla áfram minni reynslu og nýta alla þá orku sem ég á, á réttu augnablikunum. Ég vona að ég nái að nýtast innan vallar sem utan," sagði Harpa Þorsteinsdóttir við mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert