Þetta er besti dagur ársins

Hólmfríður Magnúsdóttir í landsleik.
Hólmfríður Magnúsdóttir í landsleik. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hólmfríður Magnúsdóttir, leikmaður KR, var valin í lokahóp íslenska landsliðsins í knattspyrnu fyrir Evrópumótið sem fram fer í Hollandi í næsta mánuði. Hólmfríður meiddist illa í byrjun þessa árs og var óljóst hvort hún myndi jafna sig fyrir mótið. Hún er hins vegar byrjuð að spila á nýjan leik og var valin í lokahópinn í dag. 

„Ég er ótrúlega stolt að vera valin í lokahópinn og stolt að því að fá hlutverk í hópnum eftir að hafa verið frá allt árið. Ég get ekki lýst ánægju minni yfir þessu öllu saman. Það eru forréttindi að fá að vera hluti af þessum hóp og þessari liðsheild. Ég er ótrúlega ánægð með að fá þetta traust frá Freysa og Ása (Freyr Alexandersson og Ásmundur Guðni Haraldsson, þjálfari og aðstoðarþjálfari landsliðsins)," sagði Hólmfríður við mbl.is í dag. Hún segir markmiðið alltaf hafa verið að fara á EM og hún hafi lagt mikið á sig til að það gæti gengið upp. 

„Ég var með í allri undankeppninni og stefnan var alltaf að fara á EM. Síðan lendi ég í áfalli í lok janúar og fótbrotna. Ég fór í aðgerð í febrúar og þá setti ég mig það markmið að fara á EM. Ég vann vel úr meiðslunum mínum, gafst aldrei upp og sýndi hvað viljinn tekur mann langt. Ég er ótrúlega stolt af þessu og þetta er besti dagur ársins hjá mér."

„Trúin hjá mér var alltaf til staðar og ég byrjaði að æfa aðra hluti. Ég hélt hausnum á réttum stað alla leið, það er ótrúlega mikilvægt. Ég er á góðri leið með að verða 100% núna og ég mun halda áfram að nýta hvern dag fram að því að hópurinn hittist. Ég ætla að vinna í forminu þangað til. Ég var í toppformi áður en ég meiddist og ég mun koma mér þann stað aftur."

„Ég finn mun á mér á hverjum degi. Það eru ekki nema fimm vikur síðan ég fékk grænt ljós að spila tíu mínútur og núna er ég búin að spila þrjá heila leiki í röð og 75 mínútur í leiknum þar á undan. Ég finn að formið er hægt og rólega að koma. Hver dagur vinnur með mér og ég þarf ekki auka hvíld á milli leikja."

Hólmfríður segist vera ánægð með spilamennsku sína hingað til í sumar, en hún hefur alls spilað sex leiki og þar af þrjá heila leiki og skorað í þeim þrjú mörk.

„Ég er ánægð miðað við meiðslin sem ég lenti í. Ég fótbrotnaði illa, var á hækjum í tvo mánuði og þurfti að læra hluti eins og að labba upp á nýtt. Á leiðinni voru fullt af litlum sigrum og að komast í lokahópinn er stærsti sigurinn. Mér er alveg sama hvað ég fæ margar mínútur, ég mun vera tilbúin á réttum tíma og það er frábært að vera hluti að þessu," sagði Hólmfríður að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert