Afhverju ekki FH?

Svavar Berg Jóhannsson úr Selfossi og Andrés Már Jóhannesson úr …
Svavar Berg Jóhannsson úr Selfossi og Andrés Már Jóhannesson úr Fylki í leiknum í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

„Maður er alltaf sáttur með að sigra. Við vorum að spila á móti hörku liði í dag sem lét okkur finna fyrir hlutunum en við sköpuðum mikið af færum og skoruðum tvo mörk. Í heildina fannst mér þetta sanngjarn sigur,“ sagði Helgi Sigurðsson, þjálfari Fylkis, eftir 2:0 sigur gegn Selfossi á Floridana-vellinum í Árbænum í 8. umferð Inkasso-deildarinnar, 1. deildar karla í knattspyrnu, en Albert Brynjar Ingason skoraði bæði mörk leiksins.

Ásgeir Börkur Ásgeirsson, fyrirliði Fylkis, kom inn í liðið á nýjan leik í kvöld eftir meiðsli áður en hann var tekinn af velli í seinni hálfleik en Helgi segir að hann sé í góðu standi.

„Við töluðum um að hann myndi spila 70 mínútur í dag og hann er heill og stóð sig frábærlega eins og aðrir strákar liðsins. Við erum með frábært lið og allir tilbúnir að berjast.“

Með sigrinum tókst Fylki að styrkja stöðu sína á toppi deildarinnar en liðið er nú með 19 stig eftir átta umferðir.

„Þetta lítur vel út en það er þannig í fótbolta að þetta er fljótt að breytast. Við gleðjumst yfir þessum sigri í kvöld og svo kemur alvöru leikur gegn FH. Við verðum að njóta augnabliksins og vera meðvitaðir um hvað gerir okkur góða; það er liðsheildin og baráttan og því þurfum við að halda áfram.“

Fylkir mætir Íslandsmeisturum FH í 8-liða úrslitum Borgunarbikarsins næsta fimmtudag, hvernig leggst slíkur stórleikur í Helga?

„Pressan verður á FH í þessum leik. Hún er yfirleitt á okkur í Inkasso þannig að við fáum kannski aðeins að njóta þess en við teljum okkur vera með mjög öflugt lið. Við slógum út Breiðablik í bikarnum og af hverju ekki FH? Þeir fá ekkert ókeypis hérna næsta fimmtudag.“

Nokkrum dögum á eftir bikarleiknum er svo toppslagur Inkasso-deildarinnar þegar Fylkir heimsækir Þrótt. Er erfitt að komast klakklaust í gegnum jafn þétt og erfitt prógram?

„Við erum með mjög góðan bekk, við getum hvílt einhverja og haldið mönnum ferskum. Við erum á mjög góðum stað núna en við þurfum að vera á tánum,“ sagði Helgi að endingu.

Helgi Sigurðsson
Helgi Sigurðsson Ljósmynd
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert