Skytturnar þrjár unnu kapphlaupið

Harpa Þorsteinsdóttir og Hólmfríður Magnúsdóttir fara á EM.
Harpa Þorsteinsdóttir og Hólmfríður Magnúsdóttir fara á EM. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég vann vel úr meiðslunum mínum, gafst aldrei upp og sýndi hvað viljinn tekur mann langt. Ég er ótrúlega stolt af þessu og þetta er besti dagur ársins hjá mér.“ Í þessum orðum Hólmfríðar Magnúsdóttur kristallast hamingjutilfinningin sem ég ímynda mér að hún og fleiri hafi fundið þegar tilkynnt var hvaða 23 leikmenn færu fyrir Íslands hönd á Evrópumótið í knattspyrnu í Hollandi í júlí.

Hólmfríður er ein þriggja leikmanna sem hvað mest óvissa var um hvort yrðu með í hópnum. Þær Sandra María Jessen hafa í kapphlaupi við tímann unnið hörðum höndum að því að komast af stað eftir meiðsli, og Harpa Þorsteinsdóttir fæddi annað barn sitt fyrir fjórum mánuðum. Allar eru þær í hópnum, þrátt fyrir að stutt eða mjög stutt sé síðan þær urðu leikfærar.

Freyr Alexandersson landsliðsþjálfari tók skýrt fram á fréttamannafundi í gær að Harpa og Hólmfríður yrðu í öðru hlutverki en þær hafa verið síðustu ár. Báðar hafa verið lykilmenn í landsliðinu og iðnar við markaskorun. Harpa varð markadrottning undankeppni EM, og hefur verið markahæst eða næstmarkahæst síðustu fjögur ár í Pepsi-deildinni. Hólmfríður hefur skorað 37 mörk í 110 landsleikjum og átti frábært tímabil með næstbesta liði norsku úrvalsdeildarinnar áður en hún ristarbrotnaði í janúar.

Freyr tekur vissulega ákveðna áhættu með því að velja þessa tvo leikmenn, þó að þeim sé ætlað aukahlutverk, því hann gefur sér það að á þeim tæpa mánuði sem eftir er fram að fyrsta leik á EM muni þær komast í EM-form. Þær eru ekki í því formi núna. Sandra María var frá keppni í mun styttri tíma en hinar tvær og virðist í góðu ástandi. Valið á Hörpu er líklega merkilegast, og undirstrikar þá stöðu sem hún hefur skapað sér á síðustu árum.

Nánari umfjöllun um íslenska EM-hópinn má finna í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert