Truflandi fyrir unga leikmenn

Selfyssingurinn Þorsteinn Daníel Þorsteinsson með boltann í leiknum í kvöld.
Selfyssingurinn Þorsteinn Daníel Þorsteinsson með boltann í leiknum í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

„Það er leiðinlegt að tapa en þetta er ekki í fyrsta skipti og ekki í síðasta skipti sem við töpum,“ sagði Gunnar Rafn Borgþórsson, þjálfari Selfoss, eftir 2:0 tap gegn Fylki á Floridana-vellinum í Árbænum í 8. umferð Inkasso-deildarinnar, 1. deildar karla í knattspyrnu, í kvöld.

Fylkismenn réðu lögum og lofum í fyrri hálfleik og voru verðskuldað 2:0 yfir í hálfleik eftir að Albert Brynjar Ingason hafði skorað í tvígang. Selfyssingar voru betri í seinni hálfleik en náðu þó ekki að setja mark í kvöld.

„Seinni hálfleikurinn í dag var bara jafn og skemmtilegur leikur en Fylkisliðið er sennilega bara aðeins betra en okkar lið í dag og við erum heiðarlegir með það.“

Andrew Pew, fyrirliði, fór meiddur af velli eftir rétt rúmar 10 mínútur og segir Gunnar að það hafi verið skellur.

„Við áttum erfitt með að púsla okkur saman eftir að missa Andrew Pew út af. Andy er mikilvægur í okkar leikkerfi, er fyrirliði liðsins og hefur spilað allar mínútur í öllum leikjum síðan ég man eftir mér. Við eigum samt ekki að bugast þótt við missum út einn mann og Siggi kemur sterkur inn í leikinn en þetta voru tvö góð mörk hjá Fylki, þeir eru með gott lið.“

Verður hann lengi frá?

„Hann misstígur sig svakalega illa og við látum kíkja á hann þegar bólgan hjaðnar. Við vonum að þetta sé ekkert alvarlegt.“

Selfoss hefði getað komist í þriðja sæti deildarinnar með sigri en þrátt fyrir tap er liðið aðeins þremur stigum frá Þrótti í öðru sæti, sem á þó leik til góða.

„Við höfum aldrei spáð í einhverri topp- eða botnbaráttu. Við höfum sett okkur markmið og byggjum eftir þeim. Auðvitað langar okkur að vera á toppnum, það er alltaf draumurinn, en við erum að bæta okkur og búa til leikmenn fyrir Selfoss þannig að það er margt jákvætt í þessu þó að við töpum einum fótboltaleik.“

Er einhver toppbaráttuskrekkur í leikmönnum liðsins?

„Það getur verið truflandi fyrir unga leikmenn að heyra það í útvarpi og sjónvarpi að Selfoss geti og eigi að vera á toppnum. Þegar utanaðkomandi pressa er orðin mikil þá auðvitað getur það haft áhrif en þetta er síðan bara fótbolti; þú tapar og þú vinnur, stundum gerirðu jafntefli.“

Gunnar Rafn Borgþórsson.
Gunnar Rafn Borgþórsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert