Búið að vera erfiður tími fyrir liðið okkar

Willum Þór Þórsson og Arnar Gunnlaugsson
Willum Þór Þórsson og Arnar Gunnlaugsson Ljósmynd/Sigfús Gunnar

KR-ingar unnu langþráðan sigur á KA, 3:2, í 9. umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu í dag.

Í samtali við mbl.is sást vel að Willum Þór Þórsson þjálfari KR var ánægður en sigurinn var sá fyrsti í deildinni síðan liðið sigraði ÍA þann 14. júní.

„Þetta er búið að vera erfiður tími fyrir liðið okkar. Mikið að hlutum að vinna í. Við höfum oft verið að spila vel en ekki verið að skila stigum. Þetta var einhvern veginn augnablikið núna. Þetta bara var að koma,“ sagði Willum.

„Við undirbjuggum okkur sérstaklega vel fyrir þennan leik. KA eru með frábært lið, líkamlega mjög sterkir og við þurftum að mæta því og mættum mjög einbeittir í því. Við byrjum leikinn af miklum krafti, sköpum færi og nýtum þau. Það er kannski það sem skilur að. Við kláruðum færin okkar í dag,“ sagði Willum.

„Það var svipaður bragur á okkur núna og í seinasta leik gegn Breiðabliki. Það ekki verið hægt að segja neitt hefðum við verið komir í 2:0 þar eftir 20. mínútur. Þar nýttum við ekki færin en við gerðum það í dag og það er það sem munar um,“ sagði Willum.

Arnór Sveinn Aðalsteinsson spilaði virkilega vel í vinstri bakverði í dag og lagði hann upp öll mörk KR. Willum var að vonum sáttur með hans framlag.

„Hann var algjörlega frábær í dag. Hann er að kljást við Ásgeir á hægri kantinum sem er búinn að vera funheitur. Hann er eldfljótur og þú þarft að velja réttu tímana til að fara upp. Arnór fer þrisvar upp og það skilar þremur mörkum Hann var svo mjög duglegur í varnarvinnunni, Arnór var frábær en ég gæti sagt það sama um allt liðið,“ sagði Willum.

Næstu verkefni KR-inga eru af stærri gerðinni en liðið spilar tvo leiki við SJK Seinäjoki í undankeppni Evrópudeildarinnar ásamt því að mæta Stjörnunni í Borgunarbikarnum.

„Þessi sigur gefur okkur vonandi trú á liðið inn í mjög mikilvæg verkefni. SJK Seinäjoki er mjög öflugt lið og við þurfum að ná okkar besta leik til að komast áfram og það er eitthvað sem við vinnum í núna,“ sagði Willum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert