Eigum að stela þessu í lokin

Tryggvi Hrafn Haraldsson
Tryggvi Hrafn Haraldsson mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þeir höfðu yfirburði fyrstu 20 mínúturnar en við breytum um skipulag í fyrri hálfleik og förum í 3-5-2 og náum mikið meiri stjórn á leiknum og það varð meira jafnræði eftir það," sagði Tryggvi Hrafn Haraldsson, framherji Skagamanna eftir 2:2 jafntefli við Stjörnuna á útivelli í Pepsi-deild karla í knattspyrnu í dag. 

Hilmar Árni Halldórsson skoraði annað mark Stjörnunnar beint úr aukaspyrnu, en Tryggva fannst aukaspyrnan ódýr. 

„Við náum að jafna með góðu marki, en fáum síðan mark í andlitið í byrjun seinni hálfleiks. Mér fannst þetta vera „soft" aukaspyrna. Eftir um klukkutíma leik slaka þeir á og við erum betri síðasta hálftímann og eigum að stela þessu í lokin."

„Við sýnum góðan karakter að koma tvisvar til baka. Við sýnum líka að við erum í góðu standi með því að skapa okkur færi fram í uppbótartíma."

Tryggvi skoraði ansi gott mark, er hann jafnaði leikinn í 1:1. Hann átti þá skot af löngu færi í netið, eftir að hafa náð boltanum af varnarmönnum Stjörnunnar og Sveinn Sigurður Jóhannesson var of framarlega í markinu. 

„Þeir senda til baka á varnarmanninn og hann á of fasta snertingu, ég kemst fram fyrir hann og sé að markmaðurinn er ekki alveg í markinu og ég næ að koma boltanum út fyrir hann og inn. Það munaði sentímetra, þetta var alveg út við stöng og hann hefði varið ef þetta hefði verið nær honum."

„Ég er kominn með sex mörk í öllum keppnum og það er mjög fínt, ég ætla að halda þessu áfram," sagði Tryggvi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert