Fengu ekki mörg færi, ef færi skyldi kalla

Rúnar Páll Sigmundsson
Rúnar Páll Sigmundsson mbl.is/Árni Sæberg

„Við vorum klaufar að fá ekki þrjú stig. Við fáum á okkur tvö aumingjamörk og fáum því bara eitt stig, sem er ekki gott miðað við hvað yfirburðirnir voru miklir og þá sérstaklega í fyrri hálfleik," sagði Rúnar Páll Sigmundsson um 2:2 jafntefli lærisveina sinna í Stjörnunni gegn ÍA í Pepsi-deild karla í knattspyrnu í dag. 

„Við áttum að skora 5-6 mörk í þessum leik, við fáum færin til þess. Að sama skapi áttum við ekki að fá þessi mörk á okkur, þar sem Skagamenn fá ekki mörg færi, ef færi skyldi kalla í fyrsta markinu þeirra. Ég er gríðarlega svekktur."

Hvað klikkaði hjá Stjörnunni í dag? 

„Það sem klikkar er að við fáum mark á okkur eftir aukaspyrnu frá miðju þar sem við erum ekki að dekka menn. Fyrsta markið sem þeir skora, það er gríðarlegt klúður af okkar hálfu og það er það sem gerir það að verkum að við fáum ekki þrjú stig."

„Það var margt jákvætt í okkar spili, en að sama skapi margt sem var ekki gott. Það var einbeitingaleysi í lok leiks, en við fáum tvö mjög góð færi í lok leiksins og við vorum óheppnir að skora ekki þriðja markið."

Guðjón Baldvinsson og Hólmbert Aron Friðjónsson fóru báðir út af í dag, en Rúnar segir þá engu að síður í fínu standi. 

„Staðan á þeim er fín, þeir fóru út af núna en vonandi verða þeir klárir á fimmtudaginn."

Það hefur gengið illa hjá Stjörnunni að undanförnu og liðið hefur ekki unnið í síðustu fjórum leikjum sínum. 

„Við þurfum að halda áfram, hætta að fá á okkur ömurleg mörk og þá förum við að hala inn stig," sagði Rúnar að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert