Pálmi Rafn var KR-ingum erfiður á Akureyri

Pálmi Rafn Pálmason.
Pálmi Rafn Pálmason. mbl.is/Árni Sæberg

KR-ingar heimsækja KA-menn í fyrsta skipti í þrettán ár þegar níunda umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu hefst í dag með þremur leikjum. Viðureign liðanna hefst klukkan 17 á Akureyrarvelli.

KR á ekkert sérstakar minningar frá viðureignum við KA fyrir norðan en Vesturbæingar hafa aðeins unnið Akureyrarliðið þrisvar þar í þrettán heimsóknum í efstu deild.

Pálmi Rafn Pálmason, miðjumaður KR, kom mikið við sögu þegar liðin mættust þar síðast árið 2004. Hann var þá 19 ára gamall leikmaður KA og skoraði eitt marka liðsins í sætum 3:2 sigri á ríkjandi Íslandsmeisturum þess tíma.

Pálmi er sá eini af 28 leikmönnum sem léku þann leik sem spilar í Pepsi-deildinni í dag en Willum Þór Þórsson þjálfaði KR þá eins og nú. Jóhann Þórhallsson skoraði tvö marka KA en Sigurður Ragnar Eyjólfsson, þjálfari kínversku bikarmeistaranna í kvennaflokki, Jiangsu Suning, og Ágúst Þór Gylfason, þjálfari Fjölnis, gerðu mörk KR í leiknum.

Landsliðsmaðurinn Theódór Elmar Bjarnason var þá nýorðinn 17 ára og kom inná sem varamaður hjá KR. Arnar Gunnlaugsson var í framlínu liðsins og þeir Guðmundur Benediktsson og Hjörvar Hafliðason sátu sem fastast á varamannabekk Vesturbæinga allan tímann.

KR-ingar mæta norður einu stigi fyrir ofan fallsæti deildarinnar en nýliðar KA eru í 4. sætinu.

*Fjölnir tekur á móti Val í fyrsta leik dagsins klukkan 14. Fjölnir er með 8 stig í tíunda sæti en Valsmenn eru á miklu flugi á toppi deildarinnar með 19 stig.

Valur hefur ekki unnið í Grafarvogi frá árinu 2008 þegar Hlíðarendaliðið vann þar í fyrsta og eina sinn í efstu deild til þessa, 3:2. Sigurbjörn Hreiðarsson, núverandi aðstoðarþjálfari Vals, skoraði sigurmarkið. Liðin hafa gert jafntefli í þremur síðustu leikjum sínum í deildinni á Fjölnisvelli, 2:2 í fyrra þegar Birnir Snær Ingason jafnaði fyrir Fjölni í uppbótartíma.

*Stjarnan tekur á móti ÍA klukkan 17 en þar freista Garðbæingar þess að rétta sinn hlut á ný eftir þrjú töp í röð. Þeir eru með 13 stig í þriðja sæti en ÍA er með 7 stig í næstneðsta sæti.

Skagamenn unnu síðast í Garðabæ árið 2000 þegar Hjörtur Hjartarson skoraði sigurmarkið í 1:0 sigri þeirra. Í fyrra vann Stjarnan heimaleik sinn 3:1.

*Loks tekur ÍBV á móti FH klukkan 17 á morgun á Hásteinsvelli. FH er með 11 stig í 5. sæti en ÍBV 10 stig í 8. sæti.

FH hefur aðeins tapað einu sinni í síðustu tólf heimsóknum til Eyja í deildinni en það var árið 2011 þegar Andri Ólafsson innsiglaði 3:1 sigur ÍBV. Hinsvegar vann ÍBV þar sigur á FH í undanúrslitum bikarkeppninnar í fyrra, 1:0, þar sem Simon Smidt, núverandi leikmaður Fram, skoraði sigurmarkið.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert