Skagamenn neituðu að gefast upp

Jósef Kristinn Jósefsson og Steinar Þorsteinsson í baráttunni í dag.
Jósef Kristinn Jósefsson og Steinar Þorsteinsson í baráttunni í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Stjarnan og ÍA gerðu 2:2 jafntefli í 9. umferð Pepsi-deildar karla í Garðabænum í dag. Stjörnumenn komust tvisvar yfir í leiknum, en í bæði skiptin tókst Skagamönnum að jafna, þrátt fyrir að Stjarnan hafi verið meira með boltann og skapað sér fleiri færi.

Stjörnumenn byrjuðu leikinn af miklum krafti og sköpuðu sér hvert færið á fætur öðru í upphafi leiks. Það kom því lítið á óvart þegar Guðjón Baldvinsson skoraði á 23. mínútu. Hann skoraði þá með föstu skoti á nærstöngina eftir sendingu frá Jósef Kristni Jósefssyni.

Eftir markið héldu Stjörnumenn áfram að skapa sér færi og vera með yfirburði í leiknum. Það var því nánast eins og þruma úr heiðskíru lofti þegar Tryggvi Hrafn Haraldsson jafnaði leikinn á 43. mínútu. Hörður Árnason missti þá boltann á miðjum vellinum og barst hann til Tryggva sem skoraði af löngu færi, framhjá Sveini Sigurði Jóhannessyni sem var of framarlega í markinu. Staðan í hálfleik var því 1:1.

Skagamenn byrjuðu seinni hálfleikinn á því að fá tvö ágætis færi. Fyrst átti Tryggvi skot framhjá markinu eftir snögga sókn og skömmu síðar varði Sveinn frá Þórði Þorsteini Þórðarsyni. Það voru samt sem áður Stjörnumenn sem komust í 2:1 með glæsilegu marki. Guðjón Baldvinsson vann þá aukaspyrnu rétt utan teigs, sem Hilmar Árni Halldórsson skilaði í netið með glæsilegu skoti, yfir vegginn, undir slánna og í bláhornið.

Eftir það róaðist leikurinn töluvert og var lítið um færi á stórum kafla seinni hálfleiks. Skagamenn jöfnuðu hins vegar metin á ný, fimm mínútum fyrir leikslok þegar Arnar Már Guðjónsson skallaði aukaspyrnu Þórðar frá miðlínu í hornið.

Skagamenn eru enn í fallsæti með átta stig og Stjarnan er í 3. sæti með 14 stig. Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu á mbl.is.

Stjarnan 2:2 ÍA opna loka
90. mín. Skagamenn voru svo nálægt því að tryggja sér sigurinn í blálokin. Tryggvi á góða fyrirgjöf sem Garðar rétt missir af á markteig.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert