Toppliðið náði stiginu naumlega

Fjarðabyggð var nálægt sigri á toppliðinu.
Fjarðabyggð var nálægt sigri á toppliðinu. Ljósmynd/Facebook-síða Fjarðabyggðar

Toppliðið í 2. deild karla í knattspyrnu, Magni, náði naumlega jafntefli gegn næstneðsta liðinu, Fjarðabyggð, á útivelli í gærkvöld en þá fóru fram fjórir leikir í áttundu umferð deildarinnar.

Leikur liðanna var færður inn í Fjarðabyggðarhöllina á Reyðarfirði vegna veðurs og vallarskilyrða á Eskifirði. 

Anton Bragi Jónsson kom Fjarðabyggð yfir á 11. mínútu og lengi vel stefndi í að það yrði sigurmarkið en Kristinn Þór Rósbergsson náði að jafna metin fyrir Magna á 87. mínútu.

Magni er þá með 17 stig á toppnum en Njarðvík er með 14 stig og Vestri 13. Þessi tvö lið mætast einmitt á Ísafirði í dag í sannkölluðum toppslag. Fjarðabyggð er áfram í næstneðsta sæti og nú með 5 stig.

Huginn heldur áfram að klifra upp töfluna og vann Völsung, 2:0, á Húsavík. Spánverjinn Gonzalo Zamorano skoraði bæði mörkin, það seinna í uppbótartíma, og hefur hann gert sex af tólf mörkum Seyðfirðinga í deildinni í sumar. Huginn er kominn í fjórða sætið með 13 stig en Völsungur er með 10 stig í sjöunda sæti.

Brynjar Orri Bjarnason tryggði KV sigur á Sindra, 2:1, en hann gerði bæði mörk Vesturbæinga á gervigrasvelli KR. Nedo Eres skoraði fyrir Sindramenn sem sitja fastir á botninum, án sigurs, og aðeins með 3 stig. KV er komið í 6. sætið með 11 stig.

Loks gerðu Víðir og Tindastóll 0:0 jafntefli í Garðinum. Víðir er með 12 stig í fimmta sæti en Tindastóll er með 9 stig í tíunda sæti. Höttur og Afturelding, sem einnig eru með 9 stig, mætast á Egilsstöðum í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert