Alex afgreiddi Víkinga

Kwame Quee, leikmaður Víkings Ólafsvíkur, með boltann í Víkinni í …
Kwame Quee, leikmaður Víkings Ólafsvíkur, með boltann í Víkinni í kvöld. Vladimir Tufegdzic sækir að honum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Víkingur í Reykjavík lyfti sér upp í fimmta sæti Pepsi-deildar karla í knattspyrnu í kvöld með því að vinna Víking frá Ólafsvík, 2:0, á Víkingsvellinum í Fossvogi. Alex Freyr Hilmarsson skoraði bæði mörkin.

Víkingur R. er kominn með 14 stig og liðið hefur ekki tapað í fimm leikjum eftir að Logi Ólafsson tók við þjálfun þess. Ólafsvíkingar sitja áfram á botninum með 7 stig.

Víkingur R. byrjaði betur, Ólafsvíkingar lágu aftarlega á vellinum til að byrja með en komust smám saman framar og leikurinn jafnaðist.

Lítið var um marktækifæri í fyrri hálfleiknum en báðir markverðir vörðu þó einu sinni vel. Róbert Örn Óskarsson í marki Víkings R. frá Kwame Quee á 35. mínútu og Cristian Martínez í marki Ólsara frá Alex Frey Hilmarssyni þremur mínútum síðar úr besta færi hálfleiksins.

Staðan í hálfleik var 0:0 eftir tilþrifalitlar 45 mínútur en hasar í lokin þar sem gula spjaldið fór þrisvar á loft.

Víkingur R. náði forystunni á 50. mínútu þegar Alex Freyr Hilmarsson skoraði beint úr aukaspyrnu frá miðjum vítaboganum, niðri í hægra hornið, 1:0.

Quee átti hörkuskot að marki Víkings R. á 65. mínútu en Róbert varði vel í horn. Í kjölfarið kom sóknarsinnuð skipting hjá Ólsurum og fljótlega varnarsinnuð skipting á móti hjá Víkingi R.

En einmitt þegar Víkingar R. höfðu lokið við að taka alla þrjá sóknarmenn sína af velli komust þeir í 2:0 á 84. mínútu. Ívar Örn Jónsson var snöggur að taka aukaspyrnu á miðjum velli og sendi inn fyrir vörnina á Alex Frey sem skoraði sitt annað mark, einn gegn Martínez í markinu.

Ólafsvíkingar fengu sitt besta færi í uppbótartímanum þegar þeir fengu þrjú tækifæri í sömu sókninni og að lokum var bjargað á marklínu frá Pape Mamadou Faye.

Víkingur R. 2:0 Víkingur Ó. opna loka
90. mín. Róbert í marki Víkings R. bjargar á síðustu stundu af tám Guðmundar Steins eftir sendingu Þorsteins Más frá vinstri.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert