Er með öðruvísi gleraugu en dómarinn

Milos Milojevic.
Milos Milojevic. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Milos Milojevic, þjálfari Breiðabliks, var ekki sérstaklega sáttur við markalaust jafntefli sinna manna gegn Grindavík í níundu umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu á heimavelli í kvöld. Hann segir sitt lið hafa átt skilið að vinna leikinn. 

„Mér fannst við gera nóg til að vinna leikinn. Við spiluðum vel en boltinn vildi ekki inn. Kannski vorum við of stressaðir í lokaþriðjunginum. Ég er ekki ósáttur við spilamennskuna, það vantaði bara að koma boltanum betur frá sér í sókninni og skora.“

Grindavík fékk sín færi í leiknum og Milos segir það eðlilegt, miðað við hvernig hann var að spilast. 

„Menn mega ekki gleyma sér þótt okkur liði vel. Við vorum að fara létt með þá og þá fara menn svolítið að svindla í varnarleiknum og sleppa því að hlaupa til baka og þá skapast stundum hætta. Ef þú ert svona mikið yfir í leiknum, þá fær hitt liðið alltaf sín færi.“

„Það er margt jákvætt í þessu. Boltinn gekk oft mjög vel hjá okkur og við vorum að komast inn í teig og opna þá, en það er erfitt þegar þeir eru að verjast á níu mönnum. Það vantaði gæði í þetta, það var nóg af færum en það vantaði gæðin til að klára þau.“

Mörg skot Blika fóru hátt yfir og langt fram hjá. Milos hefur skýringar á því. 

„Við höfum tekið 300 skot í vikunni, kannski eyddu þeir öllum góðu skotunum í vikunni á æfingum. Við getum kannski kennt frjálsíþróttamótinu um sem var hér í gær. Það voru mögulega holur á vellinum. Það fóru ansi mörg skot yfir á blautum velli.“

Aron Bjarnason, leikmaður Blika, féll inn í teig Grindavíkur undir lokin og vildi víti. Milos vildi ekki mikið tjá sig um það atvik. 

„Ég sá ekki neitt, ég er með öðruvísi gleraugu en dómarinn,“ sagði Milos glettinn í lokin. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert