5:0 á heimavelli óásættanlegt

Orri Þórðarson.
Orri Þórðarson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Orri Þórðarson, þjálfari FH, var svekktur eftir 5:0 tap á heimavelli í Kaplakrika gegn Breiðabliki í 10. umferð Pepsi-deilar kvenna í knattspyrnu. Staðan var 1:0 í hálfleik en frábært lið Breiðabliks gekk á lagið í þeim síðari og skoraði fjögur til viðbótar.

„Mér fannst fyrri hálfleikur fínn, hann var jafn. Sá seinni var aftur á móti mjög slakur af okkar hálfu. Blikarnir komu framar á völlinn og pressuðu okkur og við fórum bara inn í skelina.“

Hvað fannst Orra vanta upp á í seinni hálfleik?

„Við unnum enga skallabolta, enga seinni bolta og gefum eftir í flestum návígjum. Í rauninni finnst mér við koðna dálítið niður, að tapa 5:0 á heimavelli er óásættanlegt. Við vitum að Breiðablik er eitt af bestu liðunum en þá vitum við líka að við þurfum að vera dálítið fastari og berjast meira en þær en við gerðum það ekki í seinni hálfleik.“

Staðan var 1:0 allt fram á 71. mínútu þegar Berglind Björg Þorvaldsdóttir tvöfaldaði forystu Breiðabliks og eftir það komu mörkin á færibandi. Virtist ekki lið FH hreinlega brotna niður eftir það mark?

„Ég er bara sammála þér. Mér fannst við missa fókusinn, það skiptir máli hvort þú tapir 2:0 eða 5:0. Fjórða markið er bara gjöf, fimmta markið er með síðasta sparkinu. Við þurfum að hafa karakter til að klára leikinn.“

FH endaði í sjötta sæti deildarinnar í fyrra og er þar aftur núna þegar seinni umferðin í ár er að hefjast. Getur liðið endað ofar en það?

„Við þurfum að spila miklu betur til þess. Það er orðið talsvert langt í næstu lið fyrir ofan en við þurfum að hugsa um að spila betur til að fá fleiri stig. Í fyrri umferðinni gerðum við vel að klára þessi lið fyrir neðan okkur en við þurfum að spila miklu betur en þetta til að fá stig gegn toppliðunum líka.“

„Við trúum því að við getum unnið í hverjum leik en við vitum það líka að gegn þessum bestu liðum þá þurfum við að eiga frábæran leik og við náðum því svo sannarlega ekki í seinni hálfleik í dag,“ sagði Orri að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert