„Þetta er mjög pirrandi – ég er brjáluð“

Málfríður Erna Sigurðardóttir í baráttu gegn Þór/KA.
Málfríður Erna Sigurðardóttir í baráttu gegn Þór/KA. mbl.is/Árni Sæberg

„Mér fannst við vera miklu betri og hefðum átt að vinna leikinn,“ sagði Málfríður Erna Sigurðardóttir, fyrirliði Vals, hundsvekkt í samtali við mbl.is eftir 1:1-jafntefli liðsins við topplið Þórs/KA á heimavelli í Pepsi-deild kvenna í knattspyrnu í kvöld.

Þór/KA var yfir í hálfleik en engu að síður var það Valur sem var sterkari aðilinn og hefði margoft getað skorað. „Já, það er alveg ótrúlegt. Ég veit ekki hvað vantaði – bara að koma boltanum í netið,“ sagði Málfríður.

Valur hefur engu að síður ekki tapað í síðustu sjö leikjum sínum í deildinni, en hvað hefur breyst?

„Það var eftir að við breyttum um kerfi, þá hefur allt verið upp á við og við höfum náð að skora fullt af mörkum og halda hreinu. Við misstum svo margar úr og urðum bara að breyta um kerfi,“ sagði Málfríður, en það var morgunljóst að hún var pirruð á úrslitunum.

„Það er grátlegt að við höfum ekki náð að vinna þær. Þetta er mjög pirrandi – ég er brjáluð,“ sagði Málfríður Erna Sigurðardóttir í samtali við mbl.is í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert