Valur fyrst liða sem tekur stig af Þór/KA

Þór/KA tapaði sínum fyrstu stigum í Pepsi-deild kvenna í knattspyrnu þetta sumarið þegar liðið heimsótti Val á Hlíðarenda í 10. umferðinni í kvöld. Þór/KA hafði unnið alla fyrstu níu leiki sína en niðurstaðan í kvöld varð 1:1 jafntefli.

Valskonur voru sterkari aðilinn í fyrri hálfleik en Þór/KA beitti hættulegum skyndisóknum. Ein slík bar árangur eftir rétt rúmlega 20 mínútna leik og það var að sjálfsögðu Stephany Mayor sem rak endahnútinn á hana. Hún fékk þá sendingu frá Önnu Rakel Pétursdóttur og vippaði boltanum í stöng og inn. Staðan 1:0 fyrir Þór/KA.

Valur sótti mun meira fram að hálfleiksflautinu og meðal annars var mark dæmt af vegna rangstöðu, en Þór/KA var yfir í hálfleik 1:0.

Valur hélt áfram að sækja meira eftir hlé þótt gestirnir hafi einnig fengið sín færi. Á 65. mínútu náðu Valskonur svo að jafna metin. Hlín Eiríksdóttir gerði þá vel á hægri kantinum, kom með fyrirgjöf sem rataði til Vesnu Elísu Smiljkovic sem hafði tíma með boltann og skilaði honum í netið af markteig. Staðan 1:1.

Valur var meira með boltann eftir markið en skyndisóknir Þórs/KA héldu áfram að skapa usla. Lokamínúturnar voru svo spennandi þar sem liðin reyndu að kreista fram sigurmark en allt kom fyrir ekki og niðurstaðan 1:1 jafntefli.

Þór/KA er enn á toppi deildarinnar, nú með 28 stig, en Valur er í 5. sætinu með 19 stig.

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu hér á mbl.is, en nánar verður fjallað um leiki kvöldsins í íþróttablaði Morgunblaðsins á morgun. Viðtöl koma hingað inn á vefinn síðar í kvöld.

Valur 1:1 Þór/KA opna loka
90. mín. Sandra María Jessen (Þór/KA) fær gult spjald Fyrir brot.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert