Bað um sölu frá FH í apríl

Jonathan Hendrickx smellir kossi á Íslandsmeistarabikarinn sem hann fagnaði í …
Jonathan Hendrickx smellir kossi á Íslandsmeistarabikarinn sem hann fagnaði í fyrra og hitteðfyrra. mbl.is/Eggert

„Ég bað um að vera seldur. Það var mín ósk að fá nýja áskorun eftir þennan frábæra tíma hjá FH,“ segir Jonathan Hendrickx, en þessi belgíski varnarmaður hefur verið seldur frá FH til Leixoes í portúgölsku B-deildinni í knattspyrnu.

Hendrickx kom til FH á miðju sumri árið 2014 og varð tvívegis Íslandsmeistari með liðinu. Í ágúst byrjar hann hins vegar að spila með Leixoes sem var í fallbaráttu á síðustu leiktíð en stefnir hærra næsta vetur:

„Þetta er félag sem hefur fylgst með mér síðan í febrúar og viðræður hófust fyrir tíu dögum. Ég fann að þá langaði afskaplega mikið til að fá mig. Markmið félagsins er að komast aftur í efstu deild næsta vetur og þess vegna er það að búa til sterkan leikmannahóp,“ segir Hendrickx en mbl.is ræddi við hann í kvöld.

Fannst þetta rétti tímapunkturinn

„Mér fannst þetta vera rétti tímapunkturinn fyrir mig. Ég talaði við FH í apríl og sagðist vilja fara í júlí ef eitthvert félag vildi fá mig. Deildin í Portúgal byrjar í ágúst og ég þarf nokkrar vikur til að aðlagast lífinu þar, svo það var best fyrir mig að gera þetta núna. Ég ræddi við fleiri félög en þarna var áhuginn mestur og þegar maður finnur svona mikinn áhuga er erfitt að segja nei,“ segir Hendrickx. En hversu stórt skref er þetta fyrir hann?

Jonathan Hendrickx er 23 ára gamall og uppalinn hjá Standard …
Jonathan Hendrickx er 23 ára gamall og uppalinn hjá Standard Liege í Belgíu. mbl.is/Eggert

„Þetta er svo sannarlega skref upp á við fyrir mig, að fara aftur í atvinnumannadeild og til Portúgals þar sem fótboltinn er mjög góður og leikmenn með góða tæknigetu. Varðandi fjárhagshliðina þá fæ ég þarna góðan samning og bónusa fyrir hvern leik sem við vinnum, svo það er mikil breyting miðað við Ísland,“ segir Hendrickx. Hann sér ekki eftir því að hafa komið til FH á sínum tíma:

Þakklátur öllum hjá FH

„Þetta hefur verið frábær lífsreynsla; vinna tvo titla, komast í lið ársins, spila Evrópuleiki og fleira. Ég átti frábæran tíma hérna, lærði mikið og kynntist mörgu frábæru fólki. Allir innan félagsins létu mér líða eins og heima hjá mér og ég vil þakka öllum fyrir það; liðsfélögum mínum, starfsliðinu og fólkinu á skrifstofunni. Ég óska þeim alls hins besta í framtíðinni og er sannfærður um að félaginu muni ganga frábærlega,“ segir Hendrickx.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert