Kristján Flóki afgreiddi Blika

Gunnleifur Gunnleifsson, markvörður Breiðabliks, og Kristján Flóki Finnbogason í hörðum …
Gunnleifur Gunnleifsson, markvörður Breiðabliks, og Kristján Flóki Finnbogason í hörðum slag um boltann á Kópavogsvelli í kvöld. mbl.is/Eggert

Kristján Flóki Finnbogason skaut FH upp í þriðja sæti Pepsi-deildar karla í knattspyrnu þegar hann skoraði bæði mörkin í 2:1-sigri á Breiðabliki á Kópavogsvelli. Þetta var fyrsti leikur 11. umferðar sem var flýtt og leikinn í kvöld vegna Evrópuverkefna FH-inga. Blikar eru nú aðeins þremur stigum frá fallsæti og möguleiki á toppbaráttu orðinn fjarlægur.

FH var sterkari aðilinn í upphafi leiks og Þórarinn Ingi Valdimarsson átti meðal annars skot í stöng á 9. mínútu. Fimm mínútum síðar var svo ísinn brotinn þegar Kristján Flóki Finnbogason skallaði boltann í netið. Hann hafði þá lagt boltann út á Bergsvein Ólafsson sem gaf hnitmiðaða sendingu fyrir markið aftur á Kristján Flóka sem skoraði. Staðan 1:0 fyrir FH.

FH hélt áfram að ráða ferðinni en Gunnleifur Gunnleifsson í marki Blika var þar vandanum vaxinn. Blikar náðu ekki að setja teljandi mark á leikinn fyrir hlé og staðan 1:0 fyrir FH í hálfleik.

Fimm mínútna gleði Breiðabliks

Blikar voru mun sprækari eftir hlé og höfðu greinilega farið vel yfir sín mál í hálfleik. Illa gekk þó að skapa sér færi á meðan FH-ingar voru ávallt hættulegir og meðal annars átti Steven Lennon tilraun í þverslá.

Á 63. mínútu jöfnuðu Blikar hins vegar metin. Eftir annars rólega sókn fékk Gísli Eyjólfsson boltann á miðjum vallarhelmingi FH, lét vaða og hnitmiðað skot hans fór í bláhornið niðri vinstra megin. Staðan 1:1, en gleði Blika var skammvinn.

Aðeins fimm mínútum síðar kom Kristján Flóki FH-ingum yfir á ný. Michee Efete hafði farið í skógarferð út úr vörn Blika sem gaf Steven Lennon færi á að senda boltann á kollinn á Kristjáni Flóka í teignum. Staðan 2:1 fyrir FH.

FH-ingar héldu dampi eftir þetta og voru mun sterkari aðilinn það sem eftir lifði leiks. Ekki urðu þó mörkin fleiri og 2:1-sigur þeirra staðreynd. FH er nú í þriðja sætinu með 17 stig, þremur frá toppliði Vals, en Blikar eru í 8. sætinu með 11 stig og aðeins þremur frá fallsæti.

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu hér á mbl.is en nánar verður fjallað um leikinn í íþróttablaði Morgunblaðsins á morgun. Viðtöl koma svo inn á vefinn síðar í kvöld.

Breiðablik 1:2 FH opna loka
90. mín. Robbie Crawford (FH) fær hornspyrnu
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert