Fara Grindvíkingar á toppinn?

Andri Rúnar Bjarnason er mikilvægur fyrir Grindvíkinga.
Andri Rúnar Bjarnason er mikilvægur fyrir Grindvíkinga. mbl.is/Golli

Grindavík getur komist á topp Pepsi-deildar karla í knattspyrnu, takist liðinu að vinna Fjölni í Grafarvogi kl. 19:15 í kvöld, með meira en tveimur mörkum. Grindavík er sem stendur í öðru sæti deildarinnar, þremur stigum á eftir toppliði Vals og með aðeins lakari markatölu. Grindavík gæti þurft að treysta á markanef Andra Rúnars Bjarnasonar sem hefur skorað níu mörk í síðustu sjö leikjum sínum. 

Fjölnir er í neðsta sæti deildarinnar með aðeins níu stig og tvo sigra í fyrstu níu leikjum sínum. Liðið hefur ekki unnið leik eftir óvæntan sigur á Íslandsmeisturum FH á útivelli þann 22. maí síðastliðinn. Fjölnismenn hafa ekki haldið hreinu síðan þeir unnu Breiðablik, 1:0, í annarri umferð. Það verður því forvitnilegt að sjá hvernig varnarlína Fjölnismanna ræður við skæðasta framherja deildarinnar. Fjölnir getur farið alla leið upp í sjöunda sætið með sigri, en baráttan í neðri hluta deildarinnar er gríðarlega jöfn. 

Í Garðabænum fær Stjarnan heimsókn frá KR kl. 20:00. Bæði lið hafa ollið nokkrum vonbrigðum í sumar. KR er í áttunda sæti með 11 stig, aðeins tveimur stigum meira en ÍA og Fjölnir sem eru í fallsæti. Stjarnan byrjaði mótið vel en hefur ekki unnið deildarleik síðan 28. maí. Stjarnan hafði þó betur gegn KR í Borgunarbikarnum fyrr í mánuðinum. KR hefur aðeins unnið einn deildarleik síðan 14. maí og þurfa bæði lið nauðsynlega á stigunum þremur á að halda. Stjarnan er í fimmta sæti með 15 stig, níu stigum á eftir toppliði Vals og sex stigum frá neðstu liðunum. 

Í Ólafsvík mætast Víkingur Ó. og ÍA í miklum botnslag kl. 18:00. ÍA er í 11. sæti með níu stig og Víkingur í sætinu fyrir ofan með tíu stig. Í síðustu þremur leikjum sínum hefur Víkingur unnið bæði Stjörnuna og FH og er ljóst að liðið getur strítt hvaða liði sem er í deildinni á góðum degi. Skagamenn hafa spilað betur, eftir því sem liðið hefur á leiktíðina, en það gengur illa að landa þremur stigum, þrátt fyrir það. ÍA hefur aðeins unnið tvo deildarleiki á síðustu tveimur mánuðum og gæti leikurinn í kvöld verið mjög mikilvægur upp á framhald þessara liða að gera. Óljóst er með þátttöku Garðars Gunnlaugssonar, en hann er að jafna sig eftir aðgerð á pung. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert