Kærkominn og flottur sóknarleikur

Gunnar Már Guðmundsson skoraði annað mark Fjölnis og var vel …
Gunnar Már Guðmundsson skoraði annað mark Fjölnis og var vel fagnað. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Ágúst Gylfason, þjálfari Fjölnis, mætti rennvotur í viðtal eftir glæsilegan 4:0 sigur gegn Grindavík í 11. umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu í kvöld, hvað kom til?

„Við fögnum þegar við vinnum og þegar við vinnum leiki þá er ég blautur. Þetta var kærkominn sigur og það er langt síðan ég var blautur.“

„Þetta var bara frábært, nýi maðurinn kemur okkur yfir strax eftir tvær mínútur og setur ákveðna línu, við vorum mættir í þennan leik og ætluðum að klára hann.“

Fjölnir hefur ekki spilað keppnisleik í rúmar þrjár vikur, m.a. vegna þess að leik KR og Fjölnis var frestað vegna þátttöku Vesturbæinga í Evrópukeppninni, þetta frí virðist hafa skilað Fjölnismönnum tvíefldum aftur inn í Íslandsmótið.

„Má ekki segja það, þetta er búið að vera löng bið eftir að spila fótboltaleik. En mér finnst sjálfsagt að þau lið sem eru í Evrópukeppni fái góða hvíld, klárlega. En það var skrítið að bíða í fjórar vikur eftir að spila leik, maður er aldrei í svona löngu fríi, ekki einu sinni um jólin.“

Fjölnir hafði aðeins skorað átta mörk í deildinni fyrir leik kvöldsins, hafa flóðgáttirnar loksins opnast í sóknarleiknum?

„Já kannski, svo er það líka þannig að við höfum ekkert verið að skapa mikið af færum í sumar en í dag sköpuðum við urmul af þeim. Þetta var kærkomið og flottur sóknarleikur, menn voru tilbúnir að hlaupa og berjast fyrir að komast í færin og klára þau.“

„Það sem skóp þennan sigur er vinnuframlagið frá öllu liðinu en nú þurfum við að fylgja þessu eftir og vinna fleiri fótboltaleiki.“

Með sigrinum lyfti Fjölnir sér upp af botnsætinu og í það áttunda, er það ekki kærkomið?

„Þetta er svo þétt að maður er ekki endilega að telja það, það eru stigin sem telja og við þurfum að halda áfram að hala þeim inn, við erum enn þá í baráttu við fullt af liðum.“

Má búast við fleiri nýjum leikmönnum fyrir utan Linus Olsson í félagaskiptaglugganum?

„Við sjáum bara til, við lokum engu og ef það kemur eitthvað spennandi upp þá kannski skoðum við það.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert