Íslendingarnir eru duglegir að refsa KR

Gunnar Þór Gunnarsson og Viðar Örn Kjartansson í leiknum í …
Gunnar Þór Gunnarsson og Viðar Örn Kjartansson í leiknum í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Willum Þór Þórsson, þjálfari KR, var sáttur með spilamennsku síns liðs í 2:0 tapinu gegn Maccabi Tel Aviv í annarri umferð forkeppni Evrópudeildarinnar í knattspyrnu í kvöld. Staðan í leikhléi var 0:0 en í síðari hálfleik sýndu gestirnir frá Ísrael hvers þeir eru megnugir. 

„Það eru vonbrigði að við séum fallnir úr leik. Þó við höfum verið að spila við frábært lið trúðum við því allan tímann að við gætum tekið þá 2:0 á heimavelli. Fyrri hálfleikurinn gaf tilefni til þess, við vorum virkilega öflugir í fyrri hálfleiknum en þú mátt aldrei gleyma þér á móti svona liði. Lykillinn hefði verið að nýta þessi föstu leikatriði sem við fengum í upphafi seinni hálfleiks og sjá hvernig þeir hefðu brugðist við því.“

Viðar Örn Kjartansson lagði upp fyrsta markið með fallegri stungusendingu á Omer Atzily.

„Beitir er að sparka fram og við förum út úr stöðu og Atzily er klókur og öflugur, hann svindlar aðeins og kemst í gott færi sem hann klárar vel. Hann komst í kjörstöðu á milli miðvarðanna okkar, hann kemst á milli þeirra og skorar. Ef þeir fá svona færi klára þeir færin sín. Því miður fór þetta svona en ég er stoltur af frammistöðunni.“

Rúnar Már Sigurjónsson skoraði tvisvar fyrir svissneska liðið Grasshopper gegn KR í sömu keppni á síðustu leiktíð og Viðar Örn skoraði í fyrri leik liðanna í Ísrael. 

„Íslendingarnir í atvinnuliðunum eru duglegir að refsa okkur KR-ingum. Viðar er auðvitað frábær leikmaður og hann er sérstaklega góður að klára færi. Hann mataði samherja sína með sendingum í dag og hann sýndi okkur á hvaða stað hann er kominn. Það er mjög gaman að fylgjast með hvað hann er orðinn góður.“

Það voru nokkur óvænt nöfn í byrjunarliði KR í kvöld. Beitir Ólafsson, Garðar Jóhannsson, Atli Sigurjónsson og Guðmundur Andri Tryggvason fengu allir tækifæri. 

„Leikjaálagið hefur verið mikið og þetta voru öðruvísi taktískar áherslur. Þeir áttu ekki von á Garðari, hann spilar öðruvísi og er góður í að halda boltanum, aðrir gátu unnið í kringum það og þeir gerðu það feikilega vel. Við fengum hraða og léttleika á kantana með Andra og Atla. Þeir eru með góða tækni og hraðir á boltanum. Mér fannst það ganga mjög vel upp.“

„Beitir átti ekki skilið að detta út úr liðinu á sínum tíma. Stefán er okkar fyrsti markmaður og hann vann vel úr sinni aðgerð og var kominn aftur. Leikjaálagið hefur hins vegar verið að trufla hann. Við ákváðum að leyfa honum að slaka á. Beitir er búinn að vera frábær og hann var frábær í kvöld. Það verður mjög erfitt að velja liðið í næsta leik,“ sagði Willum að endingu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert