Viðar Örn og félagar áfram á kostnað KR

Óskar Örn Hauksson í baráttunni í Vesturbænum í kvöld.
Óskar Örn Hauksson í baráttunni í Vesturbænum í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

KR er úr leik í Evrópudeildinni eftir 2:0 tap gegn Viðari Erni Kjartanssyni og félögum í Maccabi Tel Aviv í seinni leik liðanna í annarri umferð forkeppninnar í Vesturbænum í kvöld. Maccabi vann einvígið 5:1 samanlagt.

Maccabi var meira með boltann í fyrri hálfleik án þess að skapa sér mikið af færum. Viðar Örn Kjartansson var nokkuð ógnandi í framlínunni en í nokkur skipti náðu varnarmenn KR að stöðva hann á síðustu stundu.

Á 32. mínútu átti Eyal Golasa góða tilraun en fast skot hans utan teigs hafnaði í þverslánni. Átta mínútum síðar komst Omer Atzily í besta færi fyrri hálfleiks en Beitir varði mjög vel frá honum af stuttu færi þegar hann var einn gegn markmanninum. Atli Sigurjónsson átti bestu tilraun KR í fyrri hálfleik en aukaspyrna hans rétt utan teigs fór yfir vegginn og í hliðarnetið. Staðan í hálfleik var markalaus. Gestirnir frá Ísrael voru hins vegar töluvert sterkari aðilinn í síðari hálfleik.

Maccabi fékk fyrsta færi síðari hálfleiks. Eftir fallega sókn komst Atzily aftur einn gegn Beiti en eins og í fyrri hálfleik varði Beitir mjög vel frá honum. Tveimur mínútum síðar komst Golasa einn gegn Beiti, en sem fyrr var sá síðarnefndi vel á verði og varði vel. Fyrsta markið kom svo á 57. mínútu, Viðar Örn átti þá glæsilega stungusendingu á Atzily sem kláraði með góðu skoti framhjá Beiti í markinu.

Níu mínútum síðar var staðan orðin 2:0. Dor Peretz skoraði þá með sinni fyrstu snertingu eftir að hafa komið inn á sem varamaður tveimur mínútum áður. Hann stýrði boltanum af mikilli fagmennsku í bláhornið eftir fyrirgjöf Atzily. Beitir Ólafsson stóð hreyfingalaus í markinu, en hann virtist halda að boltinn væri á leið fram hjá markinu.

Eftir það róaðist leikurinn svolítið og sem fyrr, gekk KR-ingum illa að skapa sér færi og komst Maccabi af öryggi í næstu umferð. 

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu á mbl.is. 

KR 0:2 Maccabi Tel Aviv opna loka
90. mín. Fínt skot en Gunnar nær að kasta sér fyrir það. Þremur mínútum bætt við.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert