Fannst liðið sitt skelfilegt í sigurleik

Frá leiknum í kvöld.
Frá leiknum í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég á erfitt með að koma þessu í orð, ég sá að dómarinn bætti við fimm mínútum og ég var að hugsa að við myndum örugglega ekki skora þó að dómarinn hefði bætt við 20 mínútum því við vorum skelfilegir,“ sagði Gregg Ryder, þjálfari Þróttar, eftir 2:1 sigur á ÍR í Inkasso-deildinni, 1. deild karla í knattspyrnu í kvöld. Viktor Jónsson skoraði hins vegar tvö mörk í uppbótartíma og tryggði Þrótti magnaðan sigur. 

Ryder hélt svo áfram að tala um hversu slakt liðið sitt var í þessum sigurleik. 

„Þetta var lélegasti leikurinn okkar í sumar. Það var ekkert gott við okkar leik og ÍR-ingarnir hljóta að vera ótrúlega svekktir því þeir áttu skilið að vinna leikinn. Þetta er mjög furðuleg tilfinning því við vorum skelfilegir, algjörlega skelfilegir en samt fengum við þrjú stig og ég hef ekki hugmynd um hvernig við fórum að því.“

Hvað var það sem Ryder var svona ósáttur við? 

„Við vorum hræðilegir þegar við vorum með boltann og við náðum ekki að senda á milli manna, það gekk ekki hjá okkur. Við erum með leikmenn í banni en það á ekki að hafa svona mikil áhrif því leikmennirnir sem koma inn í staðinn eiga að vera nógu góðir til að gera vel. Það voru ekki bara leikmennirnir sem komu inn, allt liðið stóð sig illa. Ég get samt sem áður ekki dæmt þá of mikið því við unnum leikinn og sýndum karakter.“

„Við verðum að vinna leiki sem við spilum illa og einhvern veginn tókst okkur það í kvöld. Liðin sem vinna þegar þau spila mjög illa, þau hljóta að vera nokkuð góð lið.“

Ryder og Arnar Þór Valsson, þjálfari ÍR, rifust á hliðarlínunni í dag. Englendingurinn vildi ekki tjá sig mikið um það, en hann var ekki sáttur við Jonas Hansen, danskan dómara leiksins. 

„Þetta var í hita leiksins og ekkert til að ræða. Það hljóta hins vegar að vera öðruvísi reglur í knattspyrnu í Danmörku því hann spjaldaði á allt, það mátti nánast ekki neitt.“

Næsti leikur Þróttar er gegn Þór á útivelli. 

„Við verðum að vera tíu sinnum betri en í kvöld, annars endar það illa,“ sagði Ryder. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert