Afar mikilvægur og kærkominn sigur

Ólafur Páll Snorrason, aðstoðarþjálfari FH.
Ólafur Páll Snorrason, aðstoðarþjálfari FH. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það var kærkomið að ná í þessi þrjú stig gegn erfiðu liði. Við byrjuðum leikinn af miklum krafti og náðum tveggja marka forskoti. Við komum síðan værukærir inn í seinni hálfleikinn, en sem betur fer fengum við ekki á okkur mark og niðurstaðan varð sanngjarn sigur,“ sagði Ólafur Páll Snorrason, aðstoðarþjálfari FH, í samtali við mbl.is eftir 2:0-sigur liðsins gegn ÍA í Pepsi-deild karla í knattspyrnu í dag.

„Við hreyfðum aðeins til í byrjunarliðinu í dag vegna þess álags sem hefur verið á liðinu og framundan er. Guðmundur Karl [Guðmundsson] skilaði góðu dagsverki í hægri bakverðinum. Robbie Crawford kom sterkur inn á miðasvæðið og setti mark sitt á leikinn mark sitt á leikinn með því að skora. Við erum með stóran og góðan leikmannahóp og leikmenn þekkja hlutverk sín vel,“ sagði Ólafur Páll um þær breytingar sem FH gerði á byrjunarliði sínu í leiknum í dag.

„Við höfum ekki verið að spila nógu vel í deildinni undanfarið og við viljum vinna alla leiki sem við spilum í Kaplakrika. Við erum sáttir við þennan sigur og að liðið sé að mjaka sér nær toppliðunum. Þessi sigur er gott veganesti í ferðalagið til Slóveníu. Við höldum þangað í nótt og það er gott að ferðast með sigurleik í farteskinu,“ sagði Ólafur Páll um leikinn í dag og framhaldið hjá FH-liðinu.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert